Titilsætið
Titilsætið veitir upplýsingar um titil og gerð heimildar. Titilsætið getur bæði verið óskipt og skipt.
Með óskiptu titilsæti er átt við að skráð sé verk í heild (t.d. skáldsaga) en ekki sé skráð verk sem er hluti af stærri heild (t.d. grein í greinasafni). Titill heildarverksins er skáletraður. Hér að neðan er titill bókar tekið sem dæmi um óskipt titilsæti.
Finnegan, R. (2011). Why do we quote? The culture and history of quotation. http://www.openbookpublishers.com/reader/75
Með skiptu titilsæti er átt við titilsætið sé í tvennu lagi. Í fyrri hluta titilsætis er skráður sá hluti heildarverks sem notaður er í ritsmíðinni (t.d. grein úr greinasafni) en í seinni hluta titilsætis er skráður titill heildarverksins (t.d. titill greinasafnsins þaðan sem greinin er fengin).
Fyrri hluti skipts titilsætis er ekki skáletraður. Þetta getur til dæmis verið grein í tímariti eða dagblaði, vefsíða, lag eða ljóð. Síðari hluti skipts titilsætis er skáletraður enda er um heildarverk að ræða
Dockett, S., Einarsdottir, J. og Perry, B. (2009). Researching with children: Ethical tensions. Journal of Early Childhood Research, 7(3), 283–298. https://doi.org/10.1177/1476718X09336971
Að jafnaði skal skrá titil í heild eins og hann er á titilsíðu verks (ekki á forsíðu eða kápu), bæði yfir- og undirtitil. Á milli yfir- og undirtitils skal vera tvípunktur og eitt stafbil á eftir. Á eftir tvípunkti skal vera hástafur. Sjá nánar um hástafi í enskum titlum hér.
Ýmsar upplýsingar um heimildina eru skráðar í titilsætið, nöfn ritstjóra, blaðsíðutöl og fleira. Athugið að titlar heimilda af vef og stjórnsýslu eru nær aldrei skáletraðar.
Stundum getur verið nauðsynlegt að veita nánari upplýsingar í heimildaskrá um hlutverk þess sem kemur í stað höfundar, tegund verks, útgáfu eða þýðanda. Þessar upplýsingar eru kallaðar viðbótarupplýsingar.
Athugið að viðbótarupplýsingar eru ætið innan sviga eða hornklofa til aðgreiningar frá hefðbundnum bókfræðilegum upplýsingum.
Margar viðbótarupplýsingar er hægt að skrá um eina heimild.
Stundum þarf að skrá margar viðbótaupplýsingar í sama sæti, til dæmis útgáfu og ritstjóra eða þýðanda og útgáfu o.s.frv. Ef upplýsingarnar eru skráðar á sama stað sameinast svigarnir og sett komma á milli upplýsinganna.
Viðbótarupplýsingar
Ef titill gefur ekki ótvíræðar upplýsingar eða heimild er á einhvern hátt sérstök, þarf að útskýra um hvers konar heimild er að ræða (tegund heimildar). Þetta á til dæmis við um ritdóm, geisladisk, pdf-skjal og ljósrit svo dæmi séu nefnd.
Þessar upplýsingar eru settar í titilsæti, strax á eftir titli og eru óskáletraðar innan hornklofa.
Atli Bollason. (2012). Sögusagnir [ritdómur um bókina Bónusstelpan eftir Rögnu Sigurðardóttur]. Tímarit Máls og menningar, 73(2), 134–137.
Lightfoot, F. (2010). The favorite child [hljóðbók]. Hodder and Stroughton.
Lýðheilsustöð. (2009). Ráðleggingar um mataræði og næringarefni: fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri [bæklingur]. Höfundur.
Ef ekki er um frumútgáfu að ræða má geta þess að um síðari útgáfu sé að ræða og ef sérstaklega er tekið fram í heimild að útgáfan feli í sér mikla endurskoðun, má geta þess.
Upplýsingar um númer útgáfu eru í titilsæti, strax á eftir titli verks, og eru óskáletraðar innan sviga.
Gestur Guðmundsson. (2012). Félagsfræði menntunar: Kenningar, hugtök, rannsóknir og sögulegt samhengi (2. útgáfa). Skrudda.
Hecht, T. (1998). At home in the street (10. útgáfa). Cambridge University Press.
Vilhjálmur Árnason. (2003). Siðfræði lífs og dauða: Erfiðar ákvarðanir í heilbrigðisþjónustu (2. útgáfa, aukin og endurbætt). Háskóli Íslands, Siðfræðistofnun og Háskólaútgáfan.
Ef um þýdda bók er að ræða er nafn þýðanda innan sviga strax á eftir titli.
Dewey, J. (2000). Reynsla og menntun (Gunnar Ragnarsson þýddi). Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands (frumútgáfa 1938).
Við skráningu lokaritgerða frá háskólum skal geta þess innan sviga á eftir titli um hvers konar ritgerð er að ræða. Þær upplýsingar eru ekki skáletraðar.
Aðalsteinn Snorrason. (2011). Ímynd Íslands í Bandaríkjunum. Saman-burður þjóðfélagshópa (óútgefin meistararitgerð). Háskóli Íslands, Reykjavík.