Inngangur

Höfundur ritgerðar hefur eitt tækifæri til að fanga athygli lesandans og það er í innganginum.

Í inngangi kynnir höfundur ritgerðina fyrir lesandanum. Hér þarf að segja frá efnistökum, rannsóknarspurningum helstu niðurstöðum og stundum er fjallað um uppbyggingu ritgerðarinnar.

Ýmsar leiðir eru færar í þessum efnum en algengt er að byrja ritgerðir til dæmis á spurningu sem vekur til umhugsunar, bakgrunni eða rótum viðfangsefnisins, ögrandi fullyrðingu eða tilvitnun.

Gott er að byrja innganginn frekar vítt og leiða lesandann þannig inn í viðfangsefnið. Það getur verið erfitt að lesa ritgerð sem hefur ekki verið sett nægjanlega vel í stærra samhengi.

Höfundur segir jafnframt frá rannsóknarspurningum sínum eða tilgátum og helstu niðurstöðum í stuttu máli í innganginum.

Stundum setja höfundar fram yfirlit um uppbyggingu ritgerðarinnar og þess sem vænta má í hverjum kafla. Þetta er yfirleitt eingöngu gert í lengri ritsmíðum þar sem meginmálinu er skipt í nokkra kafla. Sé þessi leið farin fer best á því að þetta sé gert í síðustu efnisgrein inngangsins.
 

Dæmi

 • Í ljósi niðurstaðna okkar má draga þá ályktun...
 • Þessi rannsókn veitir innsýn í kenningar/sögu/þróun/X...
 • Niðurstöður rannsóknarinnar geta meðal annars nýst á sviði...
 • Slíkar niðurstöður eru áhugaverðar fyrir X og geta stuðlað að Y...
 • Rannsóknirnar sem hér liggja til grundvallar eru um margt einstæðar...
 • Þessi rannsókn er fyrsta ítarlega athugunin á X...
 • Þessi rannsókn mun stuðla að auknum skilningi á kenningum/hugtökum/hugmyndum/X...
 • Skilningur á sambandinu á milli X og Y mun...

 • Niðurstöður rannsókna á tengslum og Y hafa leitt í ljós...
 • Í rannsóknum á sviði X hefur verið rætt um Y
 • Í öðrum rannsóknum hefur verið bent á...
 • Í annarri rannsókn, þar sem gert var mat á X, kom í ljós Y.
 • Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á...
 • Aðrar rannsóknir hafa sýnt að...
 • ...þó svo aðrar rannsóknir hafi sýnt hið gagnstæða.
 • Í sambærilegum rannsóknum hefur...
 • Niðurstöður X rannsókna benda til...
 • ...rannsóknir hafa leitt í ljós svipuð tengsl...
 • ...eins og erlendar rannsóknir hafa sýnt.
 • Þessar niðurstöður eru í samræmi við erlendar rannsóknir...

 • Markmiðið rannsóknarinnar var að kanna...
 • Markmið hennar er fyrst og fremst að...
 • Markmið rannsóknarinnar er annars vegar X og hins vegar Y.
 • Í þessari rannsókn er gerð tilraun til að...
 • Annars vegar erum við að skoða orðræðu um X og hins vegar um Y.

   

 • Gögnum var safnað með því að...
 • Skrif fimm höfunda verða greind...
 • Gerð var eigindleg rannsókn á einu tilviki/tilviksrannsókn...
 • Gögnin sem notuð voru í rannsókninni eru ferns konar...
 • Með því að nota eigindlegar rannsóknaraðferðir, hef ég reynt að varpa ljósi á...
 • Rannsóknin var framkvæmd með bæði eigindlegum og megindlegum aðferðum...
 • Megindlegar aðferðir voru notaðar til að gefa yfirlit um X en eigindlegar aðferðir til að kanna nánar einstaka þætti...

 • Í fyrsta hluta er gerð grein fyrir því hvernig hugtökin...
 • Hugtakið X verður notað í merkingunni 'x' í þessari ritgerð...

 • Í fyrsta hluta er útskýrt...
 • Í fyrsta kafla þessarar greinar er því haldið fram að...
 • Í fyrsta kafla bókarinnar er gerð grein fyrir helstu hugtökum
 • Í öðrum kafla er fjallað um..
 • Í öðrum kafla er farið nánar í saumana á...
 • Í öðrum kafla eru fyrst tekin nokkur dæmi... og síðan...
 • Annar kafli er fræðilegt yfirlit þar sem athyglinni er beint að...
 • í þriðja kafla eru X athuguð hver fyrir sig, og færð rök fyrir þeirri niðurstöðu að...