Upphaf og endir ritgerða

Hvernig er best að byrja og enda ritgerðir? Nokkrar leiðir eru algengastar og hér eru gefin dæmi um orðalag sem getur hentað vel í upphafi og enda ritgerða.

Markmiðið er að fanga athygli lesandans og slá um leið tóninn fyrir það sem koma skal. Eitt af eftirfarandi atriðum er algengast í því skyni:

 • Spurning sem vekur til umhugsunar
 • Ögrandi fullyrðing
 • Frásögn, sviðsetning og samræður
 • Tilvitnun
 • Samanburður/andstæður
 • Bakgrunnur/rætur viðfangsefnisins (líklega algengasta gerð upphafs)

Dæmi

Bakgrunnur, rætur viðfangsefnis: Sögur af kristnum píslarvottum eru með því elsta sem kristnir menn skrásettu. Upphaflega voru frásagnirnar sögulegar heimildir og vitnisburður sjónarvotta en síðar skapaðist helgisagnahefð þar sem sagnirnar voru í flestum tilfellum studdar af fábrotnum, sögulegum heimildum. Þetta á til dæmis við um þær píslarsögur meyja sem skráðar voru á íslensku á miðöldum.

Tilvitnun: „Vandinn við okkar tíma er sá að framtíðin er ekki sú sem hún er vön að vera,“ sagði franska skáldið Paul Valery. Síðan þessi andríku orð féllu er liðinn langur og viðburðaríkur tími. Sýn mannsins á heiminn og sjálfan sig hefur breyst í veigamiklum atriðum.

Það getur verið erfitt að ljúka máli sínu þannig að lesandi sé ekki skilinn eftir í lausu lofti. Hér er einkum átt við síðust setningar ritgerða en um efni lokaorða eða lokakafla sjá: Kaflaskipting.

Setningar á borð við þessar kunna að vera freistandi en mælt er með því að forðast þær:

 • Gaman hefði verið að skoða X og Y en ekki var tími til þess
 • Vonandi verða allir sammála um þetta efni innan tíðar
 • Mér fannst ofsalega gaman að skrifa þessa ritgerð og mikil vinna fór í hana
 • Vonandi kemur þessi ritgerð einhverjum að gagni
 • Kannski skrifa ég meira um þetta efni síðar, hver veit!

Betri leið er að reyna að búa til setningu sem lokar umræðunni greinilega.

 

Dæmi

Hér eru nokkur dæmi um ágætan lokahnykk í ritgerðum:

 • Margir áfangar hefðu verðskuldað nánari umfjöllun, sem og framlög einstaklinga. Þá hefði verið forvitnilegt að horfa til japanskra heimilda í ríkari mæli, en slík rannsókn bíður betri tíma.
 • Það verður ekki síður spennandi að fylgjast með þróun íslenskunnar á komandi árum, en hvaða stefnu sú þróun tekur skal ósagt látið.
 • Það sem skiptir máli er að Grænlendingar marki sér trúverðuga stefnu til efnahagslegs sjálfstæðis. Í slíkri stefnu þarf að vera skýrt með hvaða hætti eigi að segja skilið við greiðslur frá Danmörku og hvernig skuli staðið að því að þróa hagkvæmt og fjölbreytt efnahagslíf – að því marki sem slíkt er mögulegt.
 • Hvernig sem við skiljum fötlun er ljóst að umskiptingasagnirnar eru mun flóknari en svo að hægt sé að greina þær sem skýringasagnir á fötlun ungra barna. Í hugum fólks voru fötluð börn umskiptingar og fötluð börn hafa ótvíræð og mikil áhrif á foreldra sína, fjölskyldur og samfélag.
 • Þó að Valla-Ljóts saga láti lítið yfir sér er þar margt að finna. Þetta er saga deilna og átaka, saga hins íslenska karlaheims á þjóðveldisöld en fyrst og fremst er hún héraðssaga. Saga sem tilheyrir ákveðnum stað og ákveðnu fólki, ákveðnum heimi.