Heimildaskrá og sætin fimm

Í heimildaskrá skulu færðar allar heimildir sem vísað er til í lesmálinu, en ekki aðrar. Stuðningsrit sem höfundur kann að hafa lesið, en vísar hvergi til, eiga ekki að vera í heimildaskrá.

Munnlegar heimildir eru ekki skráðar í heimildaskrá. Sjá nánar um munnlegar heimildir.

 

Í skráningu heimilda samkvæmt APA-staðli eru fimm sæti þar sem skráðar eru ákveðnar upplýsingar. Hvert sæti endar á punkti – nema vefsætið. Sætin eru ávallt í sömu röð, ekki skal færa sætin til.

Hvert sæti um sig gegnir ákveðnu hlutverki – það miðlar ákveðnum upplýsingum til lesandans um heimildina.

Þessi fimm sæti eru:

1. Höfundarsætið: Höfundur heimildar eða sá sem tekur höfundarábyrgð á verkinu.
2. Tímasætið: Útgáfuár heimildar. Stundum er skráð nákvæmari tímasetning.
3. Titilsætið: Titill heimildar.
4. Útgáfusætið: Útgáfufyrirtæki.
5. Vefsætið: Vefslóð eða DOI-númer.

Í skráningu hverrar heimildar skal koma fram:

  • hver er höfundur (höfundarsætið)
  • hvenær heimildin var gefin út (tímasætið)
  • um hvers konar heimild er að ræða (titilsæti)
  • hvar hún kom út (útgáfusætið) eða
  • hvar hún er á vefnum (vefsætið

Þetta eru þær upplýsingar sem eiga að koma fram um hverja og eina heimild sem skráð er í heimildaskrá.

Hér er að finna upplýsingar um hvernig prentaðar heimildir eru skráðar í heimildaskrá þegar upplýsingar vantar í eitt eða fleiri þessara sæta.

Auk sætanna fimm er hægt að skrá ýmsar viðbótarupplýsingar í heimildaskrá. Þær veita nánari upplýsingar um hlutverk þess sem kemur í stað höfundar, tegund verks, útgáfu eða þýðanda.

Heimildir sem falla undir stjórnsýslu Íslands falla að mörgu leyti ekki inn í sætin fimm og fá því sérstaka umfjöllun.