Frágangur
Hér má finna almennar leiðbeiningar um frágang á ritgerðum og verkefnum, öðrum en lokaritgerðum. Upplýsingar um frágang lokaritgerða má sjá á síðunni um sniðmát.
Það er misjafnt eftir námsgreinum og eðli verkefnis hvernig frágangur og útlit á að vera en nokkur almenn atriði má nefna. Athugaðu alltaf hvaða kröfur kennarinn gerir um útlit og frágang.
Dæmi
Cambria er sjálfgefin leturgerð í ritvinnsluforritinu Word en aðrar vinsælar leturgerðir eru til dæmis Times New Roman, Arial, Garamond og Baskerville.
Venja er að nota 12-13 punkta letur í meginmáli og línubil er yfirleitt stillt á 1,5.
Textinn er oftast jafnaður báðum megin en það er gert með því að velja valmöguleikann sem er skyggður hér.
Greinaskil þarf að sýna og til þess eru tvær leiðir. Ein leið er að draga inn fyrstu línu nýrrar efnisgreinar á vinstri spássíu. Það er gert með því að stilla inndrátt (en ekki með því að nota Tab-takkann) undir Paragraph > Indentation > Special > First line, eins og sýnt er á myndinni.
Inndráttur sem samsvarar 0,7-0,8 cm nægir yfirleitt. Athugið líka að ekki þarf að draga inn fyrstu línu á eftir kaflaskilum.
Hin leiðin til að sýna greinaskil er að auka línubilið og sleppa þá inndrætti. Þetta er gert með því að auka bil á eftir síðustu línu efnisgreinar eins og sýnt er á neðri mynd.
Fyrirsagnir eru yfirleitt aðeins stærri en meginmál, þ.e. 14-16 punktar, og oftast feitleitraðar. Stundum er látið nægja að feitletra fyrirsögnina og nota jafnstórt letur og á meginmáli. Í löngum ritgerðum eru oft undirfyrirsagnir og þær þarf einnig að auðkenna. Útlit þeirra er breytilegt en algengt er að aðgreina meginfyrirsagnir og undirfyrirsagnir með feitletri, skáletri eða misstóru letri.
Einnig er hægt að stilla fyrirsagnir og meginmál með stílum (e. styles) en þeir eru ræddir sérstaklega í umfjöllun um sniðmát.
Heimildaskrá
Heimildaskrár eru settar upp á ýmsan hátt en algengt er að nota hangandi inndrátt og aukið línubil milli einstakra heimilda. Línubil er þá stillt á 1.0 og til dæmis sett 6 punkta línubil á milli heimilda.
Heimildaskrár eru settar upp á ýmsan hátt en algengt er að nota hangandi inndrátt og aukið línubil milli einstakra heimilda. Línubil er þá stillt á 1.0 og til dæmis sett 6 punkta línubil á milli heimilda.
Hangandi inndráttur er stilltur inni í valmyndinni Paragraph eins og hér er sýnt.