Almennt um skráningu heimilda - Chicago

Skráning heimildar í langri tilvísun eða heimildaskrá verður að innihalda það miklar upplýsingar að lesandi geti áttað sig á því um hvers konar heimild er að ræða og fundið hana.

Í stuttum tilvísunum er nóg að fram komi nægar upplýsingar til að leiða lesanda á réttan stað í heimildaskrá.

Nánari upplýsingar

Mismunandi er hvaða upplýsingar, hvernig og í hvaða röð eru skráðar eftir því um hvers konar heimild er að ræða.

Nokkrir grunnliðir koma þó almennt fram í skráningu heimilda og þeir eru (skráðir í þessari röð):

  • Nafn höfundar
  • Titill verks
  • Upplýsingar um útgáfu

Í tilvísunum eru liðir almennt aðgreindir með kommum en með punktum í heimildaskrá.

Ýmsar viðbótarupplýsingar eru skráðar þegar það á við. Þetta á til dæmis við um nöfn og hlutverk annarra en höfunda, síðari útgáfur, bindisnúmer, árganga, tölublöð, blaðsíðutöl og vefupplýsingar.

Nöfn ritstjóra 

Ef um heildarverk er að ræða standa nöfn ritstjóra fremst í skráningu. Þegar skráður er bókakafli í ritstýrðri bók koma nöfn ritstjóra fram á eftir titli heildarverks.

 

Nöfn þýðenda

Koma á eftir titli verks.

 

Síðari útgáfa

Skráð ef ekki er um fyrstu útgáfu að ræða, afmörkuð með kommum í langri tilvísun en punktum í heimildaskrá.

 

Bindi

Ef vísað er til margra binda sem tilheyra sama ritsafni er skráður heildarfjöldi þeirra binda sem vísað er til. Ef vísað er til eins ákveðins bindis er gefið upp númer eða titill þess bindis.

 

Árgangar og tölublöð

Koma fram strax á eftir titli tímarita, bæði í langri tilvísun og heimildaskrá. Árgangur er óskáletraður strax á eftir titli og tölublað skráð fyrir aftan kommu. Útgáfuár er í sviga á eftir tölublaði, stundum kemur fram árstíð eða mánuður útgáfu. Fyrir kemur að upplýsingar um árgang eða tölublað vantar.

 

Blaðsíðutöl

 Í tilvísunum er skráð nákvæmt blaðsíðutal þess efnis sem vísað er til, hvort sem um er að ræða tímaritsgrein, bók eða bókakafla. Í heimildaskrá kemur fram heildarblaðsíðutal tímaritsgreina og bókakafla, ekki er skráð blaðsíðutal í bókum. Ef ekki kemur fram blaðsíðutal í rafrænu efni skal reyna að gefa til kynna staðsetningu, til dæmis með því að skrá undirkafla eða ákveðna hluta greinar.

 

Vefupplýsingar

Þegar um rafrænar heimildir er að ræða er það gefið til kynna með því að bæta DOI-númeri eða vefslóð aftast í skráningu heimildar. Þetta á bæði við í löngum tilvísunum og heimildaskrám en er ekki nauðsynlegt í stuttum tilvísunum. Sótt af-dagsetning er aðeins skráð ef þess er krafist af útgefanda eða fræðasviði. Oft er þess krafist að nemendur skrái þessar upplýsingar í heimildaskrár verkefna sinna.

Heimildaskrá með verki, grein, ritgerð eða bók, á að vera á því tungumáli sem verkið er skrifað á. Í heimildaskrá með verki á íslensku á að íslenska alla liði sem ekki eru beinlínis sérnöfn:

Dæmi

  • ritstjóri (editor), ritstj. (ed.),
  • bls. (p./pp.),
  • og (&)

 

Erlendar borgir

Erlendar borgir skal íslenska ef þær eiga sér viðurkennd íslenskt heiti. 

Dæmi

  • París (Paris), Ósló (Oslo)
  • Kaupmannahöfn (København, Copenhagen, Kodaň)
  • Prag (Praha, Prague)
  • Feneyjar (Venezia, Venedig, Venice, Benátky)

 

Smekksatriði er hvort íslenska skal erlend örnefni ef íslenskt heiti er ekki mjög algengt eða sérviskulegt.

Dæmi

  • Lundúnir (London)
  • Þuslaþorp (Dusseldorf)
  • Nýja Jórvík (New York)

 

Sérnöfn

Öll sérnöfn, nöfn höfunda og heiti útgáfufyrirtækja á að skrifa stafrétt eins og á titilsíðu eða í titli heimildar.

Dæmi

  • Massachusetts Institute of Technology Press
  • Cambridge University Press

Heimildaskrá er raðað í stafrófsröð eftir nöfnum höfunda.

Íslenska höfunda skal skrá þannig að skírnarnafnið kemur fyrst, svo eftirnafnið og miðast röðunin við skírnarnafnið.

Erlendir höfundar eru skráðir með eftirnafn á undan skírnafnafni. Nöfn annarra höfunda sömu heimildar eru skráð með fornafni á undan eftirnafni.

Ef höfundar er ekki getið og heimild skráð á ritstjóra ræður nafn fyrsta ritstjóra röð heimilda og er því skráð með eftirnafn á undan fornafni.

 

Fleiri en einn höfundur

Heimild eftir einn höfund fer á undan heimild sem höfundur skrifar með öðrum höfundum.

 

Dæmi

Kogan, Herman. The First Century: The Chicago Bar Association, 1874–1974. Rand McNally, 1974.

Kogan, Herman og Lloyd Wendt. Chicago: A Pictorial History. Dutton, 1958.

 

Nokkur verk höfundar með öðrum höfundum

Ef um er að ræða tvær eða fleiri heimildir þar sem fyrsti höfundur skrifar með fleiri höfundum fer stafrófsröð eftir eftirnafni annars höfundar.

Ef fyrstu tveir höfundar eru þeir sömu ræður eftirnafn þriðja höfundar stafrófsröð og svo koll af kolli. Seinni höfundar eru samt sem áður skráðir með fornafni á undan eftirnafni.

 

Dæmi

Brooks, Daniel R. og Deborah A. McLennan. The Nature of Diversity: An Evolutionary Voyage of Discovery. University of Chicago Press, 2002.

Brooks, Daniel R. og E. O. Wiley. Evolution as Entropy. 2. útgáfa. University of Chicago Press, 1986

 

Margar heimildir eftir sama höfund

Í fyrri útgáfum Chicago var mælt með notkun svokallaðs „3-em dash“ eða „þrefalt þankastrik“ ef um endurteknar heimildir eftir sama höfund er að ræða. Chicago mælir nú gegn því.

 

Stafrófsröð heimilda eftir sama höfund eða höfunda

Ef margar heimildir hafa sama höfund, höfunda eða ritstjóra stjórnar titill heimildar því hvar hún raðast í heimildaskrá. Þá er ekki tekið tillit til óákveðins greinis, the, a og an, í ensku.

 

Dæmi

Ginger, Ray. The Bending Cross: A Biography of Eugene Victor Debs. Rutgers University Press, 1949.

Ginger, Ray. Six Days or Forever? Tennessee v. John Thomas Scopes. Quadrangle Books, 1969.

Monmonier, Mark. Coast Lines: How Mapmakers Frame the World and Chart Environmental Change. University of Chicago Press, 2008.

Monmonier, Mark. From Squaw Tit to Whorehouse Meadow: How Maps Name, Claim, and Inflame. University of Chicago Press, 2006.

Mulvany, Nancy C. „Copyright for Indexes, Revisited.“ ASI Newsletter 107 (nóvember–desember 1991): 11–13.

Mulvany, Nancy C, ritstj. Indexing, Providing Access to Information – Looking Back, Looking Ahead: Proceedings of the 25thAnnual Meeting of the American Society of Indexers. American Society of Indexers, 1993.

Mulvany, Nancy C. „Software Tools for Indexing: What We Need.“ Indexer 17 (október 1990): 108–13.

Í fyrri útgáfum Chicago var mælt með því að skrá „ibid“ þegar vísað var til sömu heimildar tvisvar sinnum eða oftar í röð.

Chicago mælir nú gegn því að „ibid“ sé notað nema kennarar eða tímarit óski sérstaklega eftir því.