Ritver Háskóla Íslands fékk í dag styrk úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til að vinna að verkefninu Fræðilegt tungutak.
Um er að ræða safn orða og orðasambanda sem notuð eru til að framkvæma í texta þær aðgerðir sem tíðkast í fræðilegum skrifum þvert á greinar, til dæmis að rökstyðja tilgátu eða bera saman kenningar annarra. Fyrirmynd að þessum gagnabanka er Manchester Academic Phrase Bank sem í áratugi hefur nýst fræðafólki sem skrifar á ensku. Verkefnið verður unnið í samvinnu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Ritvers Háskóla Íslands. Risamálheild Árnastofnunar verður notuð til að finna raunveruleg dæmi um málnotkun úr fræðitextum á íslensku til að byggja á. Gagnabankinn mun auðvelda fræðileg skrif á íslensku, sérstaklega námsfólki sem er að taka sín fyrstu skref í fræðilegum skrifum, hvort sem það hefur íslensku að móðurmáli eða ekki, og bankinn mun ekki síður nýtast reyndum fræðimönnum.
