Tenging milli kafla

Mikilvægt er að kaflar í ritgerðum séu hæfilegar langir og samhengi milli þeirra sé skýrt. Góð kaflaskipting gerir alla framsetningu skýrari og þar með verður ritgerðin læsilegri. Mjög langir kaflar geta leitt til þess að lesandinn týni þræðinum.

Kafla þarf einnig að tengja saman þannig að lesandinn fái ekki þá tilfinningu að hann sé að lesa nokkra óskylda búta. Hér geta upphaf og lok hvers kafla skipt miklu máli því hægt er að ljúka kafla á orðum sem gefa fyrirheit um það sem kemur í næsta kafla. Að sama skapi getur upphaf kafla vísað til kaflans á undan.

Dæmi

1. Hér að framan hefur umræðan einkum beinst að stöðu flóttamanna í Svíþjóð og skal nú litið til annarra Norðurlanda til samanburðar.

2. Í fyrri rannsóknum á þorskstofni við Noreg og Ísland kemur í ljós að löndin tvö hafa lengi verið sambærileg líkt og greint er frá hér að framan. Í þessum kafla verður kastljósinu beint að nýrri rannsókn sem bendir til að breytingar hafi orðið á þróun stofnsins.

Umræðan hér að framan bendir til þess að hvalveiðar hafi haft neikvæð áhrif á ímynd Íslands á heimsvísu en í næsta kafla verður nánari grein gerð fyrir því hvort niðurstaðan geti verið ólík eftir heimshlutum.