Kaflaskipting

Ritgerðum sem eru 3000 orð eða meira (6-7 bls.) þarf að skipta niður í kafla til að helstu efnisþættir ritgerðarinnar komi skýrt fram. Lengd ritgerðarinnar ræður þó nokkru um lengd kaflanna og í löngum ritgerðum er yfirleitt þörf á undirköflum.

Í lokaritgerðum kemur oft ágrip (eða útdráttur) á undan inngangi. Ágrip er yfirleitt mjög stutt, eða 2-4 efnisgreinar, og því er mikilvægt að það sé mjög hnitmiðað.

Í ágripi á höfundur að skýra frá helstu niðurstöðum rannsóknar sinnar og leggja áherslu á það sem er nýtt og spennandi, þ.e. hans framlag til fræðanna. Hins vegar er engin ástæða til að segja lesandanum frá innihaldi einstakra kafla í ágripinu; slíkt á frekar heima í inngangi.

Undir lok inngangs eru aðstandendum höfundar og leiðbeinanda hans oft færðar þakkir fyrir hjálpina.

Dæmi

Inngangur á ekki að vera meira en ein til tvær blaðsíður.

Á sumum fræðasviðum, einkum raunvísindum, tíðkast að skipta inngangi lokaritgerðar niður í nokkra undirkafla þar sem hver þáttur ritgerðarinnar er kynntur sérstaklega.

Inngangur á að skýra frá megintilgangi ritgerðar og kynna viðfangsefnið fyrir lesandanum. Þar er rannsóknarspurningin sett fram og svarið við henni rætt í stuttu máli. (Ef rannsóknarspurningarnar eru fleiri en ein þarf að ræða svörin við þeim öllum.) Þar með veit lesandinn strax í upphafi hverjar helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru og getur einbeitt sér að því í næstu köflum að meta efnistök og röksemdafærslu höfundar.

Fræðiritgerðir eiga því ekki að vera eins og glæpasögur þar sem lesendum er haldið í spennu um niðurstöðuna fram á síðustu blaðsíðu.

Í inngangi er mjög gott að setja fram stutt yfirlit um uppbyggingu ritgerðarinnar og innihald hvers kafla. Þetta er oft gert í síðustu efnisgrein inngangs.

Ekki er mælt með því að fjalla um ástæður fyrir vali efnisins eða persónulega reynslu höfundar af efninu. Slíkt á fremur heima í sérstökum formála framan við inngang ef höfundur telur nauðsynlegt að þetta komi fram. Það getur líka dregið úr trúverðugleika ritgerðar ef lesandinn sér að höfundur er tilfinningalega mjög tengdur viðfangsefninu.

Meginmál skiptist yfirleitt í nokkra kafla og undirkafla. Gott er að gera beinagrind að kaflaskiptingu ritgerðar, sjá: Drög og beinagrind. Mikilvægt er að velja hverjum kafla og undirkafla lýsandi heiti og tölusetja alla kafla og undirkafla eins og hér er sýnt:

1. Inngangur
2. Trjágróður á Íslandi
    2.1 Tegundir um landnám
    2.2 Örlög nokkurra tegunda
    2.3 Algengustu trjátegundirnar
3. Skógar á Íslandi
    3.1 Þróun síðustu alda
    3.2 Staða skóglendis
4. Framtíðarsýn
5. Lokaorð

Góð leið til að átta sig á því hvað á heima í hverjum kafla og undirkafla er að svara spurningum eins og þessum:

  • Hvað þarf að koma fram í ritgerðinni? 
  • Í hvaða röð er rétt að rekja efnið? 
  • Er hægt að flokka efnið auðveldlega? 
  • Er hver kafli einn efnisflokkur? 
  • Er eitthvað efni óþarft með tilliti til rannsóknarspurningar?

Þegar kaflaskipting er orðin nokkuð skýr er nauðsynlegt að huga að samhengi. Þótt efnisleg skil hljóti að verða á milli kafla verður að vera röklegt samhengi á milli þeirra þannig að hver kafli sé eðlilegt framhald þess kafla sem á undan kemur (sjá nánar um uppbyggingu ritgerðar).

Lokaorð eiga að vera stutt rétt eins og inngangur og ekki lengri en 1-2 blaðsíður. Þar á að draga saman helstu niðurstöður rannsóknarinnar og þar með svara þeirri rannsóknarspurningu sem lagt var upp með.

Ef höfundur á erfitt með að draga saman efnið og lýsa niðurstöðunni á skilmerkilegan hátt er líklegt að ritgerðin sé ekki nógu markviss og krefjist endurskoðunar.

Í lokaorðum er stundum bent á óleyst vandamál tengd rannsóknarefninu eða frekari rannsóknir sem niðurstöðurnar kalla á. Þar eiga hins vegar ekki að koma fram nein ný rök eða nýjar hugmyndir um viðfangsefni ritgerðarinnar.