Bygging meginmáls

Lokaritgerðir hafa yfirleitt þrjá aðalkafla.

Sá fyrsti er eins konar fræðileg undirstaða sem er nauðsynleg til þess að skýra rannsóknarefnið sjálft. Greint er frá fræðilegum kenningum um efnið og fyrri rannsóknum á því. Ef við á þarf einnig að útskýra þá aðferðafræði sem beitt er í rannsókninni og færa rök fyrir henni.

Mikilvægt er að kaflar sem á eftir koma taki mið af þessum kafla. Það þjónar litlum tilgangi að segja frá fræðilegum kenningum ef þær eru ekki nýttar í rannsókninni sjálfri.

Í kaflanum strax á eftir fræðilega kaflanum er rannsókn höfundar í aðalhlutverki. Þar er sagt frá því hvernig rannsóknin var framkvæmd en þessi lýsing þarf helst að vera nógu nákvæm til þess að hægt sé að endurtaka rannsóknina á grundvelli lýsingarinnar.

Í síðasta kafla fyrir lokaorð er fjallað um niðurstöðurnar. Hér þarf að setja niðurstöðurnar fram á skýran og skipulegan hátt, rökstyðja ákveðna túlkun á þeim og fjalla um möguleg gagnrök, vandamál eða fyrirvara sem tengjast túlkun höfundur. Niðurstöðurnar þarf einnig að bera að þeim kenningum sem settar voru fram fyrr í ritgerðinni.

Í stað þess að hafa einn kafla má skipta umfjöllun um niðurstöðurnar í tvo kafla:

  • einn fyrir framsetningu á niðurstöðunum (í töflum og gröfum)
  • annan fyrir túlkun og fræðilega umræðu.

Þetta á sérstaklega við ef rannsóknin er flókin og viðamikil eða erfitt er að túlka niðurstöðurnar út frá þeim kenningum sem höfundur leggur upp með.

Í þeirri uppbyggingu sem hér hefur verið lýst er gert ráð fyrir því að ritgerð sé að jafnaði 5-6 kaflar, þar af 3-4 í meginmáli.

Í löngum ritgerðum eru þó stundum fleiri kaflar. Þetta ber að varast því eftir því sem kaflar eru fleiri verður erfiðara fyrir lesandann að sjá samhengi á milli einstakra efnisþátta. Því er yfirleitt betra að aðalkaflarnir séu fáir og undirkaflarnir margir en að þessu sé öfugt farið.

Það sem hér hefur verið sagt á enn frekar við um stuttar ritgerðir. Ef stutt ritgerð skiptist í marga aðalkafla getur það verið til marks um að heildarmyndin sé óskýr og höfundur hafi ekki nægilega yfirsýn yfir verk sitt. Þá er rétt að athuga hvort einhverjir stuttir kaflar geti myndað heild sem einn kafli.