Hugmyndir og mótun efnis

Það er oft erfitt að velja efni í ritgerð því ekki er alltaf gott að átta sig á því hvað er viðráðanlegt viðfangsefni.

Í lokaritgerð er líka mjög mikilvægt að nemandi hafi lifandi áhuga á efninu því það eykur líkurnar á því að hann ljúki ritgerðinni á tilsettum tíma.

  Dæmi um nálgun

  Mikilvægt er að átta sig á tilgangi ritgerðarinnar snemma í ferlinu. Hér eru nokkur dæmi um tilgang ritgerðar en oft eiga nokkur þessara atriða við í einu:

  • Draga saman - Segja frá og draga saman meginefni og niðurstöður fræðilegrar heimildar í styttra máli
  • Sannfæra - Setja fram tilgátu eða kenningu og færa rök fyrir henni
  • Segja frá - Útskýra eða rekja einhverja atburðarás
  • Meta - Fjalla um gögn og meta þau á fræðilegum grundvelli
  • Svara - Bregðast við einhverju sem aðrir hafa skrifað
  • Rannsaka - Kanna kerfisbundið tiltekið efni til þess að leiða í ljós áður ókunnar eða lítt þekktar staðreyndir

  Eftirfarandi spurningar er gott að hafa í huga þegar leitað er að hugmynd sem fellur vel að áhugasviði nemanda:

  • Hvað fannst mér áhugaverðast í þeim námskeiðum sem ég hef lokið?
  • Veit ég um einhver óleyst vandamál sem eru spennandi?
  • Hef ég lesið grein eða bók þar sem minnst var á eitthvað sem mætti kanna nánar?
  • Veit ég um efni sem fræðimenn eru ekki sammála um og væri gaman að takast á við?
  • Er eitthvað ofarlega á baugi í samfélagslegri eða fræðilegri umræðu nú sem hentar til fræðilegrar rannsóknar?

  Á þessu stigi er um að gera að leyfa hugmyndum að flæða fram, skrifa niður allt sem kemur upp í hugann en taka síðan hvíld frá efninu í nokkra daga. Þá er hægt að koma aftur að hugmyndunum og reyna að draga þær saman, henda út því sem ekki passar og reyna að búa til eina hugmynd.

  Þegar líður á skrifin kvikna oft nýjar og betri hugmyndir.

  Best er að laga nýjar hugmyndir að því sem komið er og endurskoða ritgerðina með það í huga frekar en að afskrifa allt sem búið er að gera. Þá þarf einnig að spyrja hvort efnið sé heppilegt miðað við kunnáttu og færni nemandans.

  Gott er að huga að því strax í upphafi hvað hefur verið skrifað um efnið með einfaldri leit á leitir.isGoogle Scholar eða sambærilegum leitarvélum. Því minna sem hefur verið ritað um efnið, þeim mun meira reynir á sjálfstæði þitt.

  Ef niðurstöður í leitinni eru mjög margar bendir það til þess að efnið sé vinsælt eða of umfangsmikið. Því er mikilvægt að afmarka viðfangsefnið, til dæmis með eftirfarandi spurningum:

  • Er efnið viðráðanlegt og uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru?
  • Er einn flötur viðfangsefnisins ef til vill áhugaverðari en aðrir?
  • Er best að nálgast efnið með því að lesa heimildir eða krefst það túlkunar, viðtalsrannsóknar og/eða spurningakönnunar?