Drög og beinagrind

Þegar viðfangsefnið hefur verið afmarkað er hægt að búa til beinagrind fyrir ritgerðina. Beinagrind þarf hvorki að vera flókin né ýtarleg en í henni eru lögð drög að kaflaskiptingu.

Beinagrind er eins konar efnisyfirlit, ef til vill með örlitlum vangaveltum eða spurningum sem eiga við um hvern kafla:

 • Hversu margir kaflar verða í ritgerðinni og hvað eiga þeir að heita?
 • Skiptast aðalkaflar í undirkafla og þá hve marga?
 • Hvað á að vera í hverjum kafla/undirkafla?

Dæmi

BA-ritgerðin mín: heiti, efnistök og drög að kaflaskiptingu.

Vinnuheiti: Mansal á íslenskum vinnumarkaði

Spurningar sem ég ætla að leita svara við

 • Hvað er mansal og hvernig er það skilgreint?
 • Hver er lagalegur skilningur á mansali?
 • Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á mansali á vinnumarkaði á Íslandi?
 • Er mansal algengara á einum stað en öðrum?
 • Er það bundið við ákveðna atvinnugrein?
 • Hverjir hafa helst afskipti af mansali og hvaða úrræði eru fyrir hendi?
 • Hver er staða fyrirtækja sem stunda vinnumansal?

Hugmynd um rannsóknaraðferð

 • Kanna hvað hefur verið skrifað fræðilega um efnið og kortleggja rannsóknir á þessu efni.
 • Setja í samhengi við erlendar reglugerðir, t.d. frá ESB.
 • Hafa uppi á fólki sem hefur reynslu af þessum málaflokki og leita upplýsinga hjá þeim, t.d. hjá stéttarfélögum, starfsgreinasambandinu, e.t.v. tala við lögfræðinga eða lögregluna um afskipti þeirra af þessum málum.

Drög að kaflaskiptingu

1. Inngangur - setja fram rannsóknarspurningu og ræða aðferðafræði (kannski hafa það sérkafla); segja frá efni ritgerðarinnar. Hugmynd að rannsóknarspurningu: Hver er staða mansals á vinnumarkaði á Íslandi?

2. Mansal - almennur inngangur um mansal

 • 2.1 Skilgreiningar, bæði almennur skilnignur á hugtakinu og lagalegur (e.t.v. setja í samhengi við þrælahald fyrri alda).
 • 2.2. Opinberar samþykktir um mansal - ath. með dæmi frá ESB eða öðrum samböndum og aðgerðaáætlanir.
 • 2.3. Ísland - Er skilgreiningin öðruvísi á Íslandi en Evrópu? Hvaða lausnir eru fyrir hendi?

3. Vinnumarkaðurinn - skilgreining

 • 3.1. Stéttarfélög - hlutverk þeirra
 • 3.2 Réttindi fólks á vinnumarkaði - hvaða réttindi eru brotin þegar kemur að vinnumansali

4. Vinnumansal á Íslandi - hvar er það helst stundað og hversu mikið?

 • 4.1 Aðgerðir gegn mansali - hvað hefur verið gert?
 • 4.2 Staða mansals - hvað þarf að gera, hvernig er staðan nú? E.t.v. samanburður við önnur lönd, t.d. Norðurlöndin.
 • 4.3 Framtíðarhorfur - hvernig er líklegt að þetta þróist miðað við núverandi stöðu, hvers vegna? hvað þarf að breytast?

5. Lokaorð - draga saman, benda á frekari rannsóknir sem þyrfti að gera.

Áríðandi er að skipuleggja ritsmíðina strax í upphafi en einnig er mikilvægt að fresta ekki skrifunum of lengi.

Um leið og þú veist nokkurn veginn hvernig ritgerðin á að vera er gott að byrja að skrifa.

Lestur heimilda er nauðsynlegur en ekki er ráðlegt að lesa allar hugsanlegar heimildir um efnið áður en farið er að skrifa.

Gott er að byrja á þeim kafla sem þú hefur skýrastar hugmyndir um. Oft er það einhvers konar upphafskafli en ekki endilega inngangur því að mörgum þykir gott að geyma hann þangað til síðast. Í slíkum kafla er eðlilegt að gera grein fyrir rannsóknarsögu og stöðu þekkingar á því sviði sem ritgerðin fjallar um.

Þegar skrifin eru komin af stað verður einnig ljósara hvaða heimildir eru veigamestar, um hvað er nauðsynlegt að lesa betur og þá geta ýmsar spurningar vaknað sem krefjast leitar að nýjum heimildum. Þannig verður skapandi víxlverkun á milli skrifa og heimildalesturs.

Ekki hafa of miklar áhyggjur af því sem er sett er á blað í upphafi.

Fræðileg skrif eiga að vera í sífelldri endurskoðun og ekki er víst að það sem er skrifað fyrst endi í lokagerð ritgerðarinnar.

Þú þarft að ritstýra sjálfum sér af mikilli hörku og miskunnarleysi og taka burt allar setningar og efnisgreinar sem falla ekki að efninu í lokin.

Það er alltaf gott að fá athugasemdir frá öðrum sem hafa þjálfun í því að lesa yfir fræðileg skrif.

Það er auðvelt að lokast inni í þröngum heimi eigin hugsana og því geta yfirlesarar oft komið með gagnlegar ábendingar um alls kyns hluti sem þér hefur yfirsést.

Það er lykilatriði í öllum fræðilegum skrifum að hafa lesandann í huga á hverri einustu blaðsíðu.

Best er að miða við að ritgerðin sé aðgengileg fyrir samnemendur en ritgerðir á hins vegar aldrei að skrifa fyrir kennarann.

Þú þarft að velta því fyrir sér hvað þarf að útskýra fyrir lesandanum og hvernig er best að gera það. Þá getur verið gott að ímynda sér að lesandi sé ósammála því sem sagt er og því þurfi að finna góð rök sem dugi til að sannfæra slíkan lesanda.

Annað gott ráð er að ímynda sér að þú þurfir að fara í viðtal um efni ritgerðarinnar. Hvernig væri best að svara spurningum þáttastjórnanda eða blaðamanns sem spyr almennt um efni ritgerðarinnar?

Höfundur fræðilegs efnis má aldrei gera ráð fyrir því að lesandinn hafi sömu vitneskju og hann eða sömu sýn á viðfangsefnið. Þetta er þó hægara sagt en gert enda eru það mjög algeng mistök hjá nemendum að skrifa án þess að taka tillit til lesandans. Þetta birtist meðal annars í því að fullyrðingar eru settar fram án fullnægjandi rökstuðnings eða útskýringa, til dæmis í formi dæma.

Athugið líka að ritgerðir verða ekki aðeins aðgengilegri heldur líka fræðilega betri ef þú hugsar stöðugt um lesandann og hugsanlega viðbrögð hans við textanum. Ef þú sérð til dæmis ekki fram á að geta sannfært lesandann um gildi einhverrar tiltekinnar hugmyndar, er mjög líklegt að hann þurfi að hugsa betur um þessa hugmynd eða þá jafnvel að sleppa henni alveg.