Setningafræði

Formlegt málsnið snýst ekki bara um einstök orð eða orðasambönd. Ýmis setningafræðileg atriði skipta líka máli, til dæmis orðaröð, samræmi og fallstjórn. 

Dæmi

Færsla orðs eða liðar fremst í frumlagslausum setningum nefnist stílfærsla. Hún er mjög algeng í formlegu málsniði en kemur sjaldan fyrir í óformlegu málsniði. Í eftirfarandi dæmum er stílfærslu beitt á sögn í lýsingarhætti þátíðar, ögn (atviksorð) og lýsingarhátt:

 • Talið er að Grettir hafi fæðst litlu fyrir árið 1000
 • Gagnrýnin sem fram hefur komið á fullan rétt á sér
 • Þegar búið var að ganga frá var farið að sofa

Í óformlegu málsniði væru þessar setningar líklega svona:

 • Það er talið að Grettir hafi fæðst litlu fyrir árið 1000
 • Gagnrýnin sem hefur komið fram á fullan rétt á sér
 • Þegar var búið að ganga frá var farið að sofa

Í fyrsta dæminu hér fyrir ofan er merkingarsnautt það en það er fremur sjaldgæft í formlegu málsniði.

Í formlegu málsniði á samræmi fornafns við undanfara sinn (í kyni og tölu) að taka mið af málfræðilegum þáttum frekar en merkingarlegum.

Hér koma nokkur dæmi til útskýringa (þar sem undanfarinn er táknaður með undirstrikun en fornafnið er feitletrað):

 • Þegar krakkarnir komu inn vildu þeir (kk.flt.) bara horfa á sjónvarpið
 • Nefndin var í fullum rétti þegar hún (kvk.et.) tók þessa ákvörðun
 • Fólkið vildi komast inn en dyraverðirnir vörnuðu því (hk.et.) inngöngu

Gætið líka að samræmi nefnifallsfrumlags við sögn og lýsingarhætti:

 • Aðeins hluti sjúklinganna hefur (et.) verið útskrifaður (kk.et.)
 • Þangað komu (flt.) Jón og María fyrir nokkrum árum
 • Þarna þurfa (flt.) að koma fram hugsanleg mótrök

Athugið að tölusamræmi við andlag í nefnifalli er valfrjálst í germynd. Í þolmynd stýrir nefnifallsandlag hins vegar samræmi við persónubeygðu sögnina (í tölu) og lýsingarhátt aðalsagnarinnar (í kyni, tölu og falli):

 • Mér leiddist/leiddust þessir fundir óskaplega (germynd)
 • Honum eru (flt.) gefin (hk.flt.nf.) að sök umboðssvik (þolmynd)
 • Afmælisbarninu voru (flt.) færðar (kvk.flt.nf.) margar gjafir (þolmynd)

Samræmi í íslensku kemur líka fram í tíð sagna. Þannig á sögn í skýringasetningu (sem hér er merkt með hornklofum) að samræmast sögn í móðursetningu í tíð:

 • Hann segir [að vegirnir séu góðir] (nútíð)
 • Hann sagði [að vegirnir væru góðir] (þátíð)

Ekki er mælt með því að blanda saman tíðum eins og gert er í eftirfarandi dæmi:

 • Hann sagði [að vegirnir séu góðir] (þátíð – nútíð)

Ófullgerðar setningar

Óformlegt málsnið einkennist meðal annars af setningum sem innihalda hvorki frumlag né sögn í persónuhætti en slíkar setningar sjást stundum í ritgerðum nemenda:

 • Viðhorf til náttúrunnar hafa breyst mjög í aldanna rás. Allt frá miðöldum til okkar daga
 • Nemendur sögðu að þeim hefði gengið illa í grunnskóla. Einkum þegar komið var á unglingastigið.

Hér ætti að setja kommu í stað punkts og taka burt stóra stafinn:

 • Viðhorf til náttúrunnar hafa breyst mjög í aldanna rás, allt frá miðöldum til okkar daga. 
 • Nemendur sögðu að þeim hefði gengið illa í grunnskóla, einkum þegar komið var á unglingastigið.

Í vönduðu ritmáli er rétt að forðast allar þær nýjungar í málinu sem ekki hafa öðlast viðurkenningu í málsamfélaginu, til dæmis nýju þolmyndina, þágufallssýki og nýja dvalarhorfið.

Nýja þolmyndin (eða nýja setningagerðin) er eins og hefðbundin þolmynd að því leyti að hún er mynduð með hjálparsögninni vera (eða verða) og aðalsögn í lýsingarhætti þátíðar.

Í nýju þolmyndinni getur komið nafnliður í þolfalli á eftir lýsingarhættinum eða nafnliður sem er merkingarlega ákveðinn. Þar að auki er lýsingarháttur aðalsagnarinnar alltaf óbeygður:

 • Það var tekið tölvuna mína
 • Hvenær var sagt honum að skrifa þessa ritgerð?
 • Það var greitt atkvæði um málið

Hefðbundin þolmynd væri hins vegar svona:

 • Tölvan mín var tekin
 • Hvenær var honum sagt að skrifa þessa ritgerð?
 • Það voru greidd atkvæði um málið

Svonefnd þágufallssýki (þágufallshneigð) kemur fram í því að frumlag í þágufalli er notað með ýmsum sögnum sem áður tóku einungis frumlag í þolfalli eða nefnifalli.

 • Mér langar til Frakklands
 • Henni hlakkar til jólanna
 • Kvíðir þér fyrir prófinu?
 • Þeim vantar vinnu í sumar

Þágufallssýki er mjög útbreidd en hún er þó ekki við hæfi í formlegu málsniði. Viðurkennd fallnotkun væri eins og hér er sýnt:

 • Mig langar til Frakklands
 • Hún hlakkar til jólanna
 • Kvíðir þú fyrir prófinu?
 • Þau vantar vinnu í sumar

Nýja dvalarhorfið: Hefðbundið dvalarhorf er oftast notað til að lýsa því sem einhver hefur fyrir stafni. Þá stendur orðasambandið vera að með aðalsögn í nafnhætti:

 • Ég er að lesa þessa bók
 • Jón er að fara heim í dag

Sumir nota þó dvalarhorf til að lýsa tímabundnu ástandi (og þá oft með neitun) eða athöfnum sem frumlagið hefur ekki stjórn á.

 • Ég er ekki að skilja þetta
 • Stelpurnar voru að standa sig vel í fyrri hálfleik

Í dæmum af þessu tagi kemur nýja dvalarhorfið fram en það á ekki heima í fræðilegum ritgerðum. Í stað þess má nota einfalda nútíð eða þátíð:

 • Ég skil þetta ekki
 • Stelpurnar stóðu sig vel í fyrri hálfleik