Málsnið
Málsnið er heildaryfirbragð málsins og mótast af efni og aðstæðum. Á sama hátt og við klæðum okkur í ólík föt fyrir ólík tilefni veljum við málinu mismunandi búning eftir aðstæðum. Það sem er viðeigandi í einu málsniði getur því verið óviðeigandi í öðru.
Val á málsniði ræðst af ýmsum þáttum eins og miðli, markmiði, textategund, viðtakanda, aðstæðum og efni. Við veljum okkur til dæmis annað málsnið þegar við gerum grein fyrir fræðilegum niðurstöðum á ráðstefnu en þegar við spjöllum við vini okkar í heita pottinum.
Formlegt mál er því eins og spariföt sem við skörtum við ákveðin tækifæri eins og þegar við skrifum fræðilega ritgerð. Margir háskólanemar hafa ekki nægilega gott vald á formlegu málsniði og skrifa því fræðilega texta sem minna á Facebook-færslur.
Dæmi
Málsnið er misjafnlega formlegt. Í formlegu málsniði er orðaval hnitmiðað og oft notuð orð sem bundin eru við ritmál.
Íslensk nýyrði eru notuð í stað erlendra tökuorða og beyging samræmist viðurkenndri málvenju.
Formlegt ritmál á alla jafna við í fræðilegum ritgerðum og skýrslum.
Dæmi
- Formlegt: Hver átti þessa afleitu hugmynd?
- Óformlegt: Hver fattaði upp á þessu rugli?
Sum orð eru of hversdagsleg til að nota í formlegu máli. Einnig ber að forðast ósmekkleg eða gildishlaðin orð því þau fela oft í sér órökstuddar skoðanir eða hreina fordóma.
Dæmi
- Formlegt: Faðir minn á talsvert af sauðfé.
- Hlutlaust: Pabbi á margar kindur.
- Óformlegt: Kallinn á helling af rollum.
Tveir textar um sama efni geta verið gjörólíkir eftir því hvaða málsnið er notað. Eftirfarandi texti fjallar um fjárveitingar til Vegagerðarinnar og gæti verið úr fréttatilkynningu:
Hávær krafa er um að ráðist verði tafarlaust í breikkun Vesturlandsvegar, lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar og að umferðaröryggi á Suðurlandsvegi, milli Hveragerðis og Selfoss, verði stórlega bætt. Forstjóri Vegagerðarinnar segir að ekki sé varið nægu fé í málaflokkinn.
Óformleg umfjöllun um sama efni, til dæmis af bloggsíðu einstaklings, gæti verið eitthvað á þessa leið:
Það þarf að fara strax í að breikka Vesturlandsveg, klára að tvöfalda Reykjanesbraut og svo er umferðin milli Hveragerðis og Selfoss líka stórhættuleg, það verður að laga það. Forstjóri Vegagerðarinnar segir að það sé ekki nógu mikill peningur settur í þetta.
Val á málsniði er yfirleitt sjálfgefið en það verður mjög sýnilegt ef út af því er brugðið. Ekkert er athugavert við seinni textann í réttu samhengi en málsniðið hæfir ekki fræðilegum skrifum.
Talsverður munur er á rituðu og töluðu máli. Þetta fer að nokkru leyti saman við muninn á formlegu og óformlegu málsniði því ritmál er yfirleitt mun formlegra en talmál.
Þegar við skrifum gefum við okkur meiri tíma til að koma hugsunum okkar í orð en þegar við tölum og því er ritmál yfirleitt mun skipulegara og heilsteyptara en talmál.
Í talmáli geta málsgreinar hins vegar orðið mjög langar og samhengislausar. Þar að auki er eðlilegt að hika, mismæla sig eða hætta í miðri setningu í töluðu máli. Ritmál er því langt frá því að vera skrifað talmál.