Lifandi mál
Fræðilegir textir þurfa ekki aðeins að vera skýrir og skipulegir. Það er líka mikilvægt að þeir séu skrifaðir á máli sem heldur lesandanum vakandi við lesturinn.
Krafan um hlutlægan og ópersónulegan stíl hlýtur þó alltaf að setja höfundinum ákveðnar skorður í þessu efni.
Dæmi
Í fræðilegum textum getur verið nauðsynlegt að nota sama orðið aftur og aftur, t.d. ef önnur orð sömu merkingar eru ekki til í málinu. Almennt er þó æskilegt að hafa fjölbreytni í orðavali svo textinn verði ekki of staglkenndur. Þetta má sjá í eftirfarandi textabroti:
- Í þessari rannsókn voru notaðar ýmsar aðferðir sem áður hafa verið notaðar til rannsókna á slíkum setningum í ýmsum málum
- Meðal annars var notuð sú aðferð að biðja annan málhafann að spyrja hinn um upplýsingar á dagatali
Hér kemur sögnin nota fyrir þrisvar sinnum en best væri að nota hana aðeins einu sinni, t.d. eins og hér:
- Í þessari rannsókn voru notaðar ýmsar aðferðir sem áður heftur verið beitt til rannsókna á slíkum setningum í ýmsum málum, meðal annars sú aðferð að biðja annan málhafann að spyrja hinn um upplýsingar á dagatali
Þegar sama orðið eða sami orðstofninn er endurtekinn með stuttu millibili er talað um nástöðu og það er eitthvað sem ber að forðast. Fleiri dæmi um nástöðu eru sýnd hér:
- Þeir sem vinna vaktavinnu eru með öðruvísi vinnutíma en þeir sem vinna dagvinnu
- Í eigindlegum rannsóknum er mikilvægt að rannsakandi rannsaki það sem er til rannsóknar með opnum huga
Með dálítilli umorðum má fækka endurtekningum í fyrra dæminu og eyða þeim alveg í seinna dæminu:
- Þeir sem vinna á vöktum eru með öðruvísi vinnutíma en þeir sem stunda dagvinnu
- Í eigindlegum rannsóknum er mikilvægt að fræðimaðurinn nálgist viðfangsefnið með opnum huga
Hugtakið stofnanamál vísar til texta sem eru illskiljanlegir fyrir venjulegt fólk, meðal annars af því að þeir eru oft fullir af löngum samsettum orðum:
- eftirspurnarþrýstingur
- þjóðaratkvæðagreiðsla
- greiðslujafnaðarvandi
- virðisaukaskattsbifreið
- meðferðarúrræði
- evruandstæðingar
- kartöfluuppskera
- útboðsdagsetning
- skammtímaskuldbinding
- gjaldmiðlamisvægi
- ákvarðanataka o.s.frv
Slík orð má stundum brjóta upp í fleiri orð til þess að textinn verði læsilegri:
- virðisaukaskattskil > skil á virðisaukaskatti
- endurgreiðslubeiðni > beiðni um endurgreiðslu
Annað einkenni stofnanamáls eru eignarfallsrunur, það er; dæmi þar sem eignarfallseinkunn stýrist af öðru orði í eignarfalli. Slíkar runur má brjóta upp með því að nota sögn í stað fyrra nafnorðsins eða að skjóta inn forsetningu:
- til riftunar gerninga > til að rifta gerningum
- fyrirkomulag innheimtu virðisaukaskatts > fyrirkomulag á innheimtu virðisaukaskatts
Í stofnanamáli er einnig algengt að málsgreinar séu alltof langar:
Frá hausti 2016 hefur á vegum ráðuneytisins verið unnið að breytingum á reglugerð nr. 435/2009 um framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla til að ná utan um þær ákvarðanir sem hafa verið teknar í samræmi við lagabreytingar á grunnskólalögum samhliða lögum um Menntamálastofnun.
Hægt er að stytta langar málsgreinar á ýmsan hátt og gera þær skiljanlegri án þess að inntakið glatist. Eitt besta ráðið er að brjóta þær niður í tvær eða fleiri málsgreinar eins og hér er gert:
Frá hausti 2016 hefur ráðuneytið unnið að breytingum á reglugerð nr. 435/2009 sem fjallar um samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla. Breytingarnar eru gerðar til samræmis við breytingar á lögum um grunnskóla og Menntamálastofnun.
Hér hefur ýmsu öðru verið breytt líka. Til dæmis hefur þolmynd (hefur á vegum ráðuneytisins verið unnið að…) verið breytt í germynd (hefur ráðuneytið unnið að…) og það er til mikilla bóta í þessu tilviki. Um ofnotkun þolmyndar er nánar fjallað hér að neðan.
Margar sagnir í íslensku koma fyrir í þremur myndum, germynd, þolmynd og miðmynd:
- Einhver eyðilagði stólinn (germynd)
- Stóllinn var eyðilagður (þolmynd)
- Stóllinn eyðilagðist (miðmynd)
Germynd er algengasta mynd sagna í íslensku og hún hefur þann kost að sýna skýrt og greinilega hver gerandinn er (þ.e. sá sem braut stólinn í dæminu hér að ofan).
Þolmynd er notuð þegar þolandinn skiptir meira máli en gerandinn (þ.e. stóllinn í dæminu hér að ofan) og miðmynd er notuð þegar enginn gerandi er á bak við þann atburð sem sögnin lýsir, t.d. vegna þess að um slys er að ræða.
Í fræðilegum textum er talsvert um þolmynd og það helgast af því að fræðilegir textar eru yfirleitt mjög ópersónulegir. Ekki er ástæða til að amast við þessu en þó er rétt að benda á að stundum er þolmynd ofnotuð í fræðilegum textum. Þetta á ekki síst við ef gerandinn er táknaður í einhvers konar forsetningarlið:
- Aðalpersónan er Þór, sem leikinn er af Ingvari Sigurðssyni
- Slíkum refsingum hefur oft verið beitt af hálfu samfélagsins
- Meðferðarheimildið er rekið á vegum Barnaverndarstofu
Í dæmum af þessu tagi er betra að nota germynd enda er það bæði styttra og skýrara:
- Aðalpersónan er Þór, sem Ingvar Sigurðsson leikur
- Samfélagið hefur oft beitt slíkum refsingum
- Barnaverndarstofa rekur meðferðarheimildið