Heimildir og skrif

Nemendur eiga oft erfitt með að flétta eigin umræðu saman við beinar og óbeinar tilvitnanir. Nokkrar leiðir að þessu marki er gott að þekkja og nýta eftir föngum.

Þegar vitnað er til hugmynda annarra er nauðsynlegt að huga að því hvernig eða hvers vegna tiltekinn fræðimaður kom að hugmyndinni. Ef fleiri en einn hafa sett fram svipaðar hugmyndir getur dugað að ræða einn fræðimann og bæta öðrum við í tilvísun: (sjá einnig Guðrúnu Jónsdóttur, 2005, 66-78 og Jón Guðmundsson 2008, 55-57).

Algengt er að sjá umræðu um hugmyndir og svo tilvísun til fræðimanna í sviga eða neðanmálsgrein á eftir. Þetta má brjóta upp með því að flétta nafn höfundar saman við umræðuna eins og hér er sýnt:

Líkt og Sigrún Aðalgeirsdóttir (2007, 56) hefur bent á í rannsókn sinni á fjölgun hjónaskilnaða á síðustu tveimur áratugum er nauðsynlegt að taka tillit til annarra samfélgslegra þátta áður en frekari ályktanir eru dregnar. Taka má undir þessar ályktanir Sigrúnar en einnig mætti spyrja …

Höfundum fræðilegra verka hættir til að einblína um of á atriði sem styðja hugmyndir þeirra en horfa fram hjá því sem bendir í gagnstæða átt. Það getur hins vegar dýpkað umræðuna og hjálpað höfundi að styrkja sína eigin röksemdafærslu ef ólíkar niðurstöður fræðimanna eru fléttaðar saman. Sjá nánar um röksemdarfærslur hér.

Þetta er til dæmis hægt að gera á eftirfarandi hátt:

Guðlaug Adamsdóttir (2016) hefur í rannsóknum sínum beint sjónum að áhrifum snjallsíma á samskiptamynstur para og hjóna og komist að þeirri niðurstöðu að fólk ræði í auknum mæli um alvarleg málefni í gegnum samfélagsmiðla en augliti til auglitis og hún telur þetta neikvæða þróun. Sigurður Hannesson (2017, 67-88) hefur aftur á móti bent á að Guðlaug styðjist ekki við mikilvægar eldri rannsóknir um samskipti para til samanburðar. Hann spyr hvort geti verið að fólk ræði betur saman nú en áður vegna þess að það á auðveldara með að tjá sig skriflega. Þessi spurning er fullkomlega réttmæt og markmiðið hér er meðal annars að kanna hvort þróunin sé í raun neikvæð eða jákvæð.

Í fræðilegum skrifum er ekki alltaf farið rétt með staðreyndir. Þetta stafar ekki endilega af slælegum vinnubrögðum heldur getur hreinlega verið um yfirsjón að ræða. Rétt er að benda á rangfærslur af virðingu og hófstillingu.

  • Svo virðist sem NN hafi ekki kannað málið til hlítar því að í ljós kom að…

Frekar en

  • NN hefur greinilega ekki rannsakað málið nógu vel …
  • NN gleymdi augljóslega að skoða mikilvægustu gögnin …

Oft er ekki annað hægt en að treysta því sem fræðimenn halda fram. Þó er gott að fara varlega og vísa til þeirra þannig að hugsanlegt sé að þeir hafi rangt fyrir sér.

Ekki

  • NN hefur sýnt fram á …

Fremur

  • NN telur …
  • NN hefur leitt rök að því …
  • NN dregur þá ályktun að …