Rökfærsla

Lykillinn að góðum fræðilegum vinnubrögðum er að setja aldrei fram órökstuddar fullyrðingar heldur færa ætíð rök fyrir máli sínu og styðja með hvers kyns gögnum, dæmum og heimildatilvitnunum.

Fullyrðingar um alþekkt sannindi sem auðvelt er að sannreyna eru þó yfirleitt ekki studdar með heimildatilvitnun,til dæmis það að Halldór Laxness skrifaði Sölku Völku.

Þegar gögn eru notuð til rökstuðnings er mikilvægt að hafa í huga að þau eru einkum tvenns konar.

  • Annars vegar eru það frumgögn byggð á viðtölum, tilraunum eða annars konar rannsóknum sem höfundur hefur sjálfur framkvæmt eða tekið þátt í
  • Hins vegar eru það gögn sem aðrir hafa aflað og birt, helst á ritrýndum vettvangi

Fyrir höfund ritgerðar er erfiðara að treysta gögnum af seinna taginu og því er mikilvægt að ganga úr skugga að slík gögn séu áreiðanleg.

Dæmi

Undirstöðuatriði rökfærslu mætti setja fram á eftirfarandi hátt:

Fullyrðing: Lögleiðing kannabisefna er óæskileg. 

Rök: því neysla á hassi leiðir oft til neyslu á sterkari efnum.

Gögn: Rannsóknir sýna að rúmlega 90% íslenskra amfetamínfíkla byrjuðu sem hassreykingamenn (vísa hér í rannsóknir).

Í fræðilegum skrifum er æskilegt að reyna að sjá fyrir bestu hugsanlegu mótrökin og taka þau til umfjöllunar í stuttu máli. Ekki forðast mótrök því að þau má nýta til þess að styrkja eigin röksemdafærslu og auka trúverðugleika skrifanna.

Til að hefja umræðu um mótrök má nota eftirfarandi orðalag:

  • á móti mætti spyrja …
  • hér má velta fyrir sér …
  • Í rannsókn Jóns Jónssonar kemur fram að … en þar er ekki tekið tillit til …
  • einhver kynni að spyrja …

Fullyrðing: Sagan eins og hún er varðveitt er væntanlega skrifuð á Íslandi.

Vísað í mótrök: Þó hefur komið upp sú hugmynd að sagan gæti hafa verið skrifuð á Orkneyjum eða í Noregi. Fyrri hugmyndin sprettur af því að góðar heimildir eru fyrir því að biskupinn í Orkneyjum hafi ort drápu út af sögunni. D. A. Seip taldi aftur á móti að í sögunni mætti finna norsk máláhrif.

Mótrökum svarað: Í fyrsta lagi er ýmsum vandkvæðum bundið á þrettándu öld að ákvarða hvað eru norsk áhrif þar sem íslenska og norska eru nánast sama tungumálið á þessum tíma. Í öðru lagi eru vísbendingar í textanum um að sagan sé skrifuð á Íslandi, til að mynda setningin „þá hafði spurzt út hingað ósættin Haralds konungs“ en af samhenginu má ráða að „út hingað“ vísar til Íslands.