Hlutlægni - huglægni

Í ritgerðarskrifum eru yfirleitt gerðar kröfur um ákveðna hlutlægni.

Markmið hlutlægrar umfjöllunar er að veita lesandanum áreiðanlegar upplýsingar. Höfundur leggur ekki persónulegt mat á það sem hann er að lýsa heldur er áhersla lögð á nákvæmar lýsingar og staðreyndir sem koma viðfangsefninu við.

Huglæg umfjöllun felur aftur á móti í sér tilfinningaleg viðhorf. Höfundur lýsir persónulegri skoðun og tekur afstöðu án þess að færa sérstök rök fyrir máli sínu. Lýsingar eru almennar og algengt er að notuð séu tilfinningaorð og gildishlaðin orð. Markmið huglægra skrifa er oft að hafa áhrif á lesandann.

Það er örugglega eitthvað misjafnt eftir fræðasviðum hversu mikilvægir þessir þættir eru en allir hafa þeir áhrif á lesandann og hvernig hann skilur skrifin.

Markmið fræðilegra skrifa er ekki aðeins að leita svara fyrir sjálfan sig heldur ekki síður fyrir aðra. Þess vegna er mikilvægt að færa haldgóð rök fyrir máli sínu svo lesandinn taki ritgerðina alvarlega.

Eftirfarandi spurningar er gott að hafa í huga í hvert sinn sem höfundur setur fram fullyrðingar eða skoðanir til þess að koma í veg fyrir að textinn verði ómarkviss og órökstuddur:

 • Af hverju þarf lesandinn að vita þetta?
 • Hvað er til marks um þetta?
 • Hvernig er best að rökstyðja þetta?
 • Hefur einhver haldið þessu fram?

Dæmi

Breiðnefur (lat. Ornithorhynchus anatinus) er spendýr af breiðnefsætt. Heimkynni breiðnefsins eru í Eyjaálfu og landnemar Ástralíu kölluðu dýrið „vatnamoldvörpu“. Síðar var því gefið latneska nafnið Ornithorhyncus, sem þýðir fuglsnef. Þrátt fyrir að vera spendýr hefur breiðnefurinn enga spena heldur sækja afkvæmi hans mjólkina út um húðina. Breiðnefur hefur flatt nef og sundfit eins og önd en verpir eggjum eins og skriðdýr. Hann hefur þó loðinn feld eins og flest önnur spendýr. Breiðnefurinn er síðasta eftirlifandi tegund nefdýraættbálksins ásamt mjónefjum.

Með allt á hreinu er ein besta mynd sem ég hef séð. Ég elska Eggert Þorleifsson, hann er einfaldlega fyndnasti maður Íslands. Ragga Gísla er líka æðisleg. Mér finnst að allir ættu að sjá þessa mynd, hún er meistaraverk!

Hlutlæg umfjöllun útilokar alls ekki að höfundar setji fram sínar eigin skoðanir og raunar er mjög æskilegt að höfundar hafi einhverja skoðun á viðfangsefnum sínum. Í fræðilegum skrifum er þó alltaf sterk krafa um að þessar skoðanir séu rækilega rökstuddar.

Höfundur fræðilegs texta verður að nálgast viðfangsefnið eins og fræðimaður og útiloka sem mest sína eigin persónu. Því mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvernig bakgrunnur höfundar getur haft áhrif á skrifin. Atriði sem geta haft áhrif eru t.d.:

 • Aldur
 • Reynsla
 • Kyn
 • Búseta
 • Stjórnmálaskoðanir
 • Foreldrar og vinir
 • Menntun