Ritver og Kennslumiðstöð Háskóla Íslands kynna nýtt verkefni sem hefur það markmið að styðja við kennara við Háskóla Íslands sem kenna á íslensku en hafa annað móðurmál. Verkefnið samanstendur af tvenns konar þjónustu.

Emma Björg Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri við Ritver Háskóla Íslands, mun bjóða einstaklingsráðgjöf fyrir kennara þar sem verður að ræða atriði á borð við gerð kennsluáætlana, verkefni, próf og annað kennsluefni. Fyllsta trúnaðar verður gætt um það sem fram fer á fundunum. Emma hefur lokið meistaraprófum í heimspeki og menningarfræði og leggur nú stund á doktorsnám í heimspeki. Emma hefur kennt á háskólastigi frá árinu 2009 við Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskólann á Bifröst. Tímapantanir fara fram hér:

https://outlook.office365.com/owa/calendar/Ritver1@reiknistofnun.onmicrosoft.com/bookings/

Kennslumiðstöð og Ritver Háskóla Íslands munu standa fyrir mánaðarlegu kennsluspjalli þar sem fjallað verður um kennslu, kennslumenningu og menningarlæsi sem verður opið öllum kennurum við Háskóla Íslands. Þátttakendum gefst tækifæri til að deila reynslu sinni af því að kenna á Íslandi og í háskólum um heim allann í styðjandi og hvetjandi umhverfi. Þau sem hafa áhuga á menningarmun í háskólastarfi eru velkomin. Fyrsti fundurinn mun fara fram mánudaginn 20. september í Suðurbergi í Setbergi.

Verkefninu var hrundið af stað eftir ákall frá öllum fræðasviðum Háskóla Íslands og er ætlað að styðja við kennara af erlendum uppruna sem vilja kenna á íslensku og fræðast um kennslumenningu við Háskóla Íslands.