Mikilvægt er að vanda frágang allra ritsmíða, stórra sem smárra og hvort sem þær eru ætlaðar til opinberrar birtingar eða eingöngu fyrir augu kennara. Þá skulu höfundar ritsmíða ávallt fylgja þeim fyrirmælum um frágang sem ritstjóri eða kennari leggur fram.
Ávallt skal gæta þess að ritsmíðar séu þægilegar aflestrar, samræmi í leturgerð og stærð leturs – bæði hvað varðar meginmál og kaflafyrirsagnir. Einnig þarf að huga að línubilum, skiptingu í efnisgreinar og þess háttar.
Einnig skiptir máli að samræmi sé í uppsetningu tilvísana og heimildaskrár og sama kerfi sé fylgt alla ritsmíðina út í gegn.
Hér eru lagðar til reglur byggðar á APA um frágang en nemendum er bent á að fylgja fyrirmælum kennara.
- Heimildum skal raða í stafrófsröð eftir nafni fyrsta höfundar hvers verks eins og það er skráð í heimildaskránni (ritstjóri eða titill geta í sumum tilvikum komið í stað höfundar).
- Ef sami höfundur á fleiri en eina heimild í skránni raðast þær í tímaröð (elsta verkið fyrst).
- Ef sami höfundur á fleiri en eina heimild frá sama ári raðast þær eftir stafrófsröð titils og eru aðgreindar með a, b, c o.s.frv. Enskur ákveðinn greinir (the) hefur ekki áhrif á stafrófsröð.
- Heimildir eftir höfund einan raðast á undan þeim heimildum sem hann hefur samið með öðrum.
- Heimildir sem höfundur hefur samið með öðrum raðast eftir stafrófsröð næsta höfundar.
- Ef sömu höfundar (tveir eða fleiri) eiga fleiri en eina heimild er verkunum raðað í tímaröð, elsta heimildin fyrst.
- Ef sömu höfundar (tveir eða fleiri) eiga fleiri en eina heimild frá sama útgáfuári er heimildum raðað eftir stafrófsröð titils.
- Við stafrófsröðun er ekki tekið mið af ákveðnum og óákveðnum greini (í ensku: a, an, the; í norrænum málum: en, den).
- Hver heimild er sett upp með fyrstu línu hangandi.
- Milli heimilda er aukið línubil – ekki auka línubil.
- Ekki á að tölusetja heimildir í heimildaskrá samkvæmt APA staðli.
- Heimildaskrá með verki, grein, ritgerð eða bók, skal vera á því tungumáli sem verkið er skrifað á. Í heimildaskrá með verki á íslensku skal íslenska alla liði sem ekki eru beinlínis sérnöfn:
ritstjóri (editor), ritstj. (ed.),
bls. (p./pp.),
og (&)
- Erlendar borgir skal íslenska ef þær eiga sér viðurkennd íslenskt heiti:
París (Paris), Ósló (Oslo), Kaupmannahöfn (København, Copenhagen, Kodaň), Prag (Praha, Prague), Feneyjar (Venezia, Venedig, Venice, Benátky)
- Smekksatriði er hvort íslenska skal erlend örnefni ef íslenskt heiti er ekki mjög algengt eða sérviskulegt:
Lundúnir (London), Þuslaþorp (Dusseldorf), Nýja Jórvík (New York).
- Öll sérnöfn, nöfn höfunda og heiti útgáfufyrirtækja skal skrifa stafrétt eins og á titilsíðu eða í titli heimildar:
Massachusetts Institute of Technology Press.
Cambridge University Press.
- Í heitum bóka, bókakafla og tímaritsgreina skal nota hástafi í fyrsta orði, á eftir tvípunkti og ef um sérnafn er að ræða.
Tudge, J. (2008). The everyday lives of young children: Culture, class, and child-rearing in diverse societies. New York: Cambridge University Press.
Buchanan-Barrow, E. (2005). Children’s understanding of the school. Í M. Barret og E. Buchanan-Barrow (ritstjórar.), Children’s understanding of society (bls. 17–38). East Sussex: Psychology Press.
- Í enskum heitum tímarita skal nota hástafi í öllum orðum nema forsetningum, samtengingum og greinum sem eru þrír stafir eða minna.
Dein, S. (2006). Race, culture, and ethnicity in minority research: A critical discussion. Journal of Cultural Diversity, 13, 68–75.
- Þegar um íslenska titla er að ræða skulu hástafir og lágstafir halda sér eins og þeir eru að því undanskildu að hástafur skal ávallt fara á eftir tvípunkti þegar um millifyrirsögn er að ræða. Að öðrum kosti skal aldrei breyta lágstaf í hástaf.
- Í enskum titlum bóka, bókakafla, tímarita og tímaritsgreina skal skrifa með hástaf öll orð nema forsetningar, samtengingar og greina sem eru þrír stafir eða minna.
-
Í bókinni The Everyday Lives of Young Children: Culture, Class, and Child Rearing in Diverse Societies kemur fram að…
Í bókarkaflanum „Children’s Understanding of the School“ kemur fram að …
Tímaritið Journal of Educational Research birtir greinar um …
Í greininni „Race, Culture and Ethnicity in Minority Research: A Critical Discussion“ segir höfundur frá því …
- Titlar bóka og tímarita eru skáletraðir.
Bandura, A. (1986). Social foundations of thought and action: A social cognitive theory. New Jersey: Prentice-Hall.
Ragnhildur Bjarnadóttir. (1993). Leiðsögn – liður í starfsmenntun kennara. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.
- Í tvískiptu titilsæti er heildartitill verks skáletraður.
Dockett, S., Einarsdottir, J. og Perry, B. (2009). Researching with children: Ethical tensions. Journal of Early Childhood Research, 7(3), 283–298. doi:10.1177/1476718X09336971
Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2002). Í eilífri leit – virðing og fagmennska kennara. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt af http:// netla.khi.is /greinar / 2002/005/03/index.htm
- Ef ekki er skráður höfundur eða ritstjóri að bók fer titill hennar í höfundarsæti og er áfram skáletraður.
Basic history of immigration. (2009). San Francisco: Migration Press.
- Titlar bóka eða annars efnis, sem eiga að vera skáletraðir í heimildaskrá, eru einnig skáletraðir ef þeir koma fyrir í lesmáli.
Í bókinni Nöfnum Íslendinga er að finna…
Bókin The Everyday Lives of Young Children: Culture, Class, and Child Rearing in Diverse Societies segir frá…
Tímaritið Journal of Education birtir niðurstöður rannsókna í menntavísindum.
- Þegar kynnt er nýtt lykilhugtak er það skáletrað í fyrsta sinn sem það kemur fyrir.
Verkefni byrja á stuttum inngangi sem útskýrir viðfangsefni þeirra. Í inngangi er…
- Tölfræðitákn eru skáletruð í lesmáli.
Tölfræðilega marktækur munur reyndist á milli kynja, t(54) = 5,43, p <0,001, og reyndust drengir með hærri einkunn en stúlkur.
- Ef gæsalappir eru í titlum heimilda haldast þær óbreyttar í heimildaskrá.
North, S. M. (2011). Revisiting “The idea of a writing center”. Í C. Murphy og S. Sherwood (ritstjórar), The St. Martinʼs sourcebook for writing tutors (4. útgáfa, bls. 58–70). Boston: Bedford.
Anna Magnea Hreinsdóttir. (2009). „Af því að við erum börn“: Lýðræðislegt umræðumat á menntun barna og þjónustu fjögurra íslenskra leikskóla (óútgefin doktorsritgerð). Sótt af http://skemman.is/stream/get/1946/4331/12584/1/AMH_Af_%C3%BEv%C3%AD_a%C3%B0_vi%C3%B0_erum_b%C3%B6rn_fixed.pdf
- Titlar í lesmáli, sem ekki eru skáletraðir í heimildaskrá, eru hafðir innan gæsalappa.
Í kvæðinu „Vornótt“ kemur fram …
Í greininni „Race, Culture and Ethnicity in Minority Research: A Critical Discussion“ segir höfundur frá því…
Í greininni „starfshæfni kennara frá sjónarhóli norrænna kennaranema” er fjallað um…
- Gæsalappir eru notaðar til að afmarka stuttar orðréttar tilvitnanir (beinar tilvitnanir).
- Stundum eru gæsalappir notaðar til að afmarka vafasama orðmynd eða slettu í texta þegar höfundur hefur ekki betra orð á takteinum.
Tilvitnun í orðalag er afmörkuð með „gæsalöppum“ ef hún er styttri en 40 orð.
Kennslu- og uppeldisfræðingar hafa margir fjallað um uppeldi barna og unglinga en eftirfarandi hefur Jón Torfi Jónasson (2006, bls. 40) um málið að segja: „Uppeldismál eru í eðli sínu álitamál og stundum deiluefni sem margir taka mjög alvarlega og þau verða fyrir bragðið gjarnan hitamál.“
Kennslu- og uppeldisfræðingar hafa margir fjallað um uppeldi barna og unglinga en Jón Torfi Jónasson (2006, bls. 40) segir þau einmitt vera „í eðli sínu álitamál og stundum deiluefni sem margir taka mjög alvarlega“.
Það að lesa sögu er ekki ósvipað því að hlusta á sögu en eins og fram kemur hjá Silju Aðalsteinsdóttur (1999, bls. 81) hafa allar frásagnir „sögumann, rödd sem talar við okkur sem lesum og segir okkur frá“.
Silja Aðalsteinsdóttir (1999) segir allar frásagnir hafa „sögumann, rödd sem talar við okkur sem lesum og segir okkur frá“ (bls. 81). Það má því segja að það að lesa sögu sé á margan hátt svipað því að hlusta á sögu.
Athugið að punktur getur verið á undan eða eftir gæsalöppum.
Punktur er á undan gæsalöppum ef hann er hluti af tilvitnun.
Punktur er á eftir gæsalöppum ef hann er ekki hluti af tilvitnun heldur afmarkar orð höfundar.
Þegar vísað er til blaðsíðu á eftir tilvitnun í gæsalöppum er tilvísunin á eftir gæsalöppum en á undan punkti.
Ef tilvitnun í orðalag er lengri en 40 orð er hún afmörkuð sem sérstök efnisgrein, inndregin og stundum með þéttara línubili og/eða minna letri. Ekki skal nota gæsalappir.
Uppeldismál eru í eðli sínu álitamál og stundum deiluefni sem margir taka mjög alvarlega og þau verða fyrir bragðið gjarnan hitamál. Þau eru líka að mörgu leyti í eðli sínu pólitísk, þótt þau séu ekki nærri alltaf bundin hefðbundinni flokkapólitík. Þau sýna líka betur en margt annað hvað er efst á baugi í huga fólks og spegla því vel hvað er stöðugt og hvað breytilegt í málaflokknum og eru þannig áhugaverður mælikvarði á stöðugleikann. (Jón Torfi Jónasson, 2006, bls. 40)
Fram yfir 1930 voru einungis skrifaðar stuttar sögur handa börnum á Íslandi og yfirleitt gefnar út nokkrar saman, ævintýri, bernskuminningar og hvunndagssögur af ýmsum börnum eða með eitt barn sem aðalpersónu. Upp úr 1930 verður umtalsverð breyting á því, og má tengja þá breytingu við þjóðfélagsþróunina og þróunina í bókmenntum okkar yfirleitt. (Silja Aðalsteinsdóttir, 1981, bls. 149)
Athugið að punkturinn í lok tilvitnunar á að vera á undan tilvísanasviganum.
Algengar skammstafanir í heimildaskrám:
bls. blaðsíða/-ur
e.d. engin dagsetning
o.fl. og fleiri
ritstj. ritstjóri / ritstjórar
Forðast skal skammstafanir í lesmáli, meðal annars vegna þess að það þykir læsilegra að skrifa orðin út frekar en skammstafa þau auk þess sem sama skammstöfun getur haft tvær eða fleiri merkingar (til dæmis getu s.s. bæði þýtt „sama sem“ og „svo sem“).
Þegar skammstöfuð eru til að mynda hugtök, heiti samninga, samþykkta eða stofnana er allur titillinn skrifaður fyrst og skammstöfunin í sviga á eftir. Framvegis þegar fjallað er um hugtakið eða stofnunina má nota skammstöfunina eingöngu. Hér má sem dæmi nefna Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) og Háskóla Íslands (HÍ).