Gleðilegan föstudag!
Vikan hefur flogið hjá í Ritverinu. Fyrri vinnustofa nemenda í Inngangi að sjúkraþjálfun undir handleiðslu starfsfólks Ritvers fór fram á þriðjudaginn. Samstarf námsbrautar í sjúkraþjálfun og Ritvers hefur staðið yfir í nokkur ár. Það fer þannig fram að í fyrstu viku kennir starfsmaður Ritvers fræðileg skrif og í framhaldinu vinna nemendur að ritgerðum undir handleiðslu jafningjaráðgjafa í tveimur vinnustofum.
Það hefur verið ómetanlegt fyrir jafningjaráðgjafa að sjá í návígi hvernig ritsmíðarnar verða til og fá að fylgja nemendum frá fyrstu hugmyndavinnu og alveg yfir í fullbúið ritverk. Við hlökkum mikið til næstu vinnustofu.
Ritstundir doktorsnema hófu göngu sína í vikunni. Ritstundirnar verða haldnar alla miðvikudaga klukkan 9:00-12:00 í Setbergi. Í ritstundum gefst doktorsnemum tækifæri til að vinna að eigin ritsmíðum og mynda tengsl við aðra doktorsnema. Jafningjaráðgjafar Ritvers halda utan um ritstundirnar og nemendur geta leitað til þeirra ef einhverjar spurningar vakna.
Forstöðukona hitti líka hóp starfsfólks frá Tækniháskólanum í Blekinge í Svíþjóð. Ýmis mál bar á góma, til dæmis samstarf Ritvera og námsbrauta, leiðir til að gera kennsluefni um ritun aðgengilegra innan háskólasamfélagsins og samstarf ritvera og bókasafna hér á landi og í Svíþjóð.
Einnig barst Ritveri beiðni um að búa til leiðbeiningar fyrir nemendur og starfsfólk um umgengni við gervigreind á borð við ChatGPT, en þau mál hafa verið ofarlega á baugi á öllum skólastigum bæði hérlendis og erlendis að undanförnu. Áhugasöm um notkun gervigreindar í námi og kennslu mega vænta frekari leiðbeininga og umræðu um þetta efni á næstu dögum.
Fyrir hönd starfsfólks Ritvers Háskóla Íslands óska ég bæði nemendum og starfsfólki góðrar helgar!
Emma Björg