Neðanmálsgreinar og aftanmálsgreinar

Samkvæmt APA-staðli er ekki gert ráð fyrir að vísað sé til heimilda í neðanmálsgreinum (neðst á síðu) eða aftanmálsgreinum (í lok ritsmíðar).

 

Gert er ráð fyrir að nota neðanmálsgreinar í þremur tilvikum

  • Til að skýra efnið nánar eða vísa í skýringar
  • Til að útskýra höfundarrétt að myndefni
  • Til að birta orðréttan frumtexta sem þýddur hefur verið í lesmáli

Í lesmáli er vísað í neðanmálsgrein með tölu, sem skrifuð er með brjóstletri næst á eftir greinarmerki, yfirleitt punkti. Þetta er hægt að gera með auðveldum hætti í flestum ritvinnslukerfum.

Dæmi

Ef höfundur vill benda lesendum sínum á frekari fróðleik án þess beinlínis að vitna til heimilda er unnt að gera það í neðanmálsgrein.[1]

Ef birt er myndefni eftir annan en höfund ritsmíðar þarf að fá sérstakt leyfi hjá rétthafa efnisins og geta þess. Til þess að íþyngja ekki myndatexta með slíkum upplýsingum er þess getið neðanmáls.

Heimild er formlega skráð í heimildaskrá en skriflegt leyfi rétthafa skal fylgja ritgerð sem viðauki. Neðanmálsgreinin byrjar á orðinu Skýring (e. note).[2]

Ef vitnað er orðrétt til heimildar á erlendu máli skal þýða tilvitnunina í lesmálinu sjálfu.[3] Á eftir þýðingunni fer tilvísunarnúmer en í neðanmálsgrein er hin orðrétta tilvitnun á frummálinu ásamt vísun til heimildar.

[1] Mjög þægilegt er að lesa sér til um APA-staðalinn á heimasíðu ritversins við Purdue-háskóla, Purdue Online Writing Lab (OWL). Þar er margt tíundað nákvæmar en hér um neðanmálsgreinar.

[2] Skýring. Úr bókinni Sköpunarsögur eftir Pétur Blöndal og Kristin Ingvarsson, 2007, bls. 45. Prentað með leyfi rétthafa.

[3] Frá þessu eru undantekningar ef sérstaklega er verið að fjalla um orðalag á frummálinu eða ætla má að allir lesendur geti lesið frummálið án nokkurs misskilnings.