Fjöldi tilvísana

Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hversu oft þarf að vísa í heimild í texta. Meginreglan er sú að ekki má fara á milli mála hvaðan hugmyndir og upplýsingar eru fengnar. Ef vitnað er í margar hugmyndir, sama höfundar, í sömu efnisgrein og aðeins er vísað til heimildar í lok efnisgreinar veit lesandi ekki hvað tilvísunin á við um mikið af þeim hugmyndum. Það er ekki rangt að hafa tilvísun á eftir hverri setningu en það er óþarfi og getur gert lesturinn erfiðari og leiðinlegri.

Hrönn Pálmadóttir og Guðrún Bjarnadóttir rannsökuðu hreyfingu og leik eins til þriggja ára barna á tveimur leikskólum (Hrönn Pálmadóttir og Guðrún Bjarnadóttir, 2012). Niðurstöður sýndu að umhverfið hafði áhrif á börnin (Hrönn Pálmadóttir og Guðrún Bjarnadóttir, 2012). Börn læra hvert af öðru og leikir hreyfingar þeirra geta orðið til þess að til verði nýir leikir og nýjar hreyfingar (Hrönn Pálmadóttir og Guðrún Bjarnadóttir, 2012). Þetta samræmist hugmyndum ýmissa fræðimanna (Hrönn Pálmadóttir og Guðrún Bjarnadóttir, 2012).

Ef notaðar eru tilvísanir með áherslu á efni (nafn höfundar og ártal haft innan sviga) eiga bæði nafn höfundar og ártal að vera innan tilvísanasviga í hvert sinn sem vísað er til heimildar. Það er ekkert rangt við það að vísa til heimildar á eftir hverri setningu. Að lesa langa grein sem skrifuð er á þennan hátt getur þó orðið þreytandi. Það er hægt að vísa til efnis annarra án þess að ofnota tilvísunarsviga. Ef notaðar eru tilvísanir með áherslu á höfund (nafn höfundar tekið út fyrir sviga) þarf ekki að nota tilvísunarsviga í hvert sinn sem vísað er til heimildar eftir það. Þannig má nota nafn höfundar sem hluta af frásögninni og gera textann læsilegri.

Hrönn Pálmadóttir og Guðrún Bjarnadóttir (2012) rannsökuðu hreyfingu og leik eins til þriggja ára barna á tveimur leikskólum. Niðurstöður þeirra sýndu að umhverfið hafði áhrif á börnin. Þær telja að börn læri hvert af öðru og að leikir hreyfingar þeirra geti orðið til þess að til verði nýir leikir og nýjar hreyfingar. Þetta telja Hrönn og Guðrún samræmast hugmyndum ýmissa fræðimanna

Hér er nafn höfundar tekið út fyrir sviga í fyrstu tilvísun og því óþarfi að nota tilvísunarsviga í hvert sinn sem vitnað er í heimildina eftir það svo framarlega sem það er ljóst úr hvaða heimild efni er fengið.