Vefslóð í vefsæti

Þegar vísað er í efni sem sótt er af vef og  hefur ekki DOI-númer er vefslóð skráð í vefsæti. Þegar vefslóð er skráð í vefsæti skal einungis skrá viðeigandi vefslóð. Almennt er ekki tekið fram hvenær efnið var sótt af netinu. Það er þó gert þegar enginn er ábyrgur fyrir efninu og/eða líklegt er að það geti breyst.

 

Lærke, A. (1998). By means of re-membering: Notes on a fieldwork with English children. Anthropology Today, 14(1), 3–7. http://web.ebscohost.com/ehost/pdfviewer/pdfviewer?sid=2f392521-1d47-474b-a949-c8bf1862d637%40sessionmgr10&vid=2&hid=7

Rannveig Klara Matthíasdóttir. (2012). Skóli án aðgreiningar: Viðhorf sérkennara í grunnskólum til stefnunnar skóli án aðgreiningar (óútgefin meistararitgerð). http://hdl.handle.net/1946/13175

Við frágang rafrænna slóða í heimildaskrá skal taka af allar leturbreytingar eins og undirstrikanir og lit. Ekki skal skrá punkt að lokinni vefslóð.

Ekki er lengur þörf á að skrifa "sótt af" þegar efni er sótt af vefsíðum heldur er vefslóðin einungis sett í vefsæti. Almennt þarf heldur ekki að skrá hvenær efni er sótt af vef. Undantekning frá þessu er þegar um er að ræða vefsíður þar sem enginn ákveðinn aðili (til dæmis einstaklingur, stofnun eða fyrirtæki) er ábyrgur fyrir efninu og líklegt er að efnið muni breytast. Þá er skráð sú dagsetning þegar efnið er sótt. Þetta á til dæmis við um Wikipedia.

Aðeins þarf að taka fram hvenær efnið er sótt þegar um er að ræða efni sem enginn ákveðinn aðili er ábyrgur fyrir.

Uppeldisfræði. (2012). Wikipedia. Sótt 13. febrúar 2013 af http://is.wikipedia.org/wiki/Uppeldisfræði

Wikipedia er rafrænt alfræðirit og því er titillinn skáletraður. Ekki er mælt með því að vísað sé í efni af Wikipedia í fræðilegum skrifum.

Oftast fer ekki á milli mála hvaða vefslóð skal skrá þegar vísað er í rafræna heimild. Ávallt er best að tryggja að vefslóðin vísi á réttan stað með því að smella á hana eftir að hafa límt hana inn í heimildaskrá.

Stundum er gefið upp hvaða vefslóð skuli vísa í. Þetta á til dæmis við um verk sem er að finna á Skemmunni (skemman.is).

Ýmis verk í rafrænu formi er að finna á vefsíðum sem eru í raun ekki ábyrgar fyrir þessu tiltekna verki. Hér má sem dæmi nefna ef aðalnámskrá grunnskóla er að finna á vefsvæði einhvers grunnskóla. Uppruni aðalnámskrár er á vefsvæði mennta- og menningarmálaráðuneytis sem gefur hana út og er ábyrgt fyrir henni.

Alla jafna ætti að kappkosta við að finna hið „upprunalega heimili“ hverrar heimildar á netinu og vísa lesendum þangað. Svipað gildir um sáttmála Sameinuðu þjóðanna og fleiri svipuð gögn sem margir kjósa að vista á heimasíðum sínum.