Rafrænar heimildir

Samfara aukinni upplýsinga- og tölvutækni er nú meira af efni aðgengilegt á rafrænu formi en áður.

Sumt efni sem birtist á netinu er ekki formlega útgefið og ekki er getið sérstaklega um útgefanda eða ábyrgðaraðila.

Þú þarft að vera vakandi fyrir því að allt sem birtist á internetinu er „komið út“ í þeim skilningi að reglur um höfundarrétt eru þær sömu og um efni sem kemur út á prenti. Þetta á líka við þegar ekki er um formlega útgáfu að ræða.

Það er því jafn mikilvægt að vísa til og skrá rafrænar heimildir líkt og prentaðar.

Dæmi

Stundum kemur efni út bæði rafrænt og á prenti. Það getur verið munur á rafrænni og prentaðri útgáfu hvort sem það er vísvitandi eða fyrir mistök. Gerðu grein fyrir því í heimildaskráningu, hvora útgáfuna þú notar.

Samkvæmt Chicago-staðli er mælt með því að þetta sé gert með því að bæta rafrænu auðkenni (DOI) eða vefslóð (URL) við, aftast í skráningu heimildar.

Æskilegt er að DOI-númer sé notað hafi efninu verið úthlutað slíku númeri. Fyrir aðrar óprentaðar heimildir ætti að taka fram um hvers konar miðil ræðir (t.d. geisladiskur). Sjá skráning heimilda.

Ólík form rafrænna heimilda, svo sem PDF- eða HTML-form sömu greinar, felur ekki í sér að um ólíka heimild sé að ræða. Slóðin er líklega ekki sú sama en DOI-númerið breytist ekki þar sem því er ætlað að vísa lesanda á alla þá staði þar sem efnið birtist rafrænt.

Ef prentuð útgáfa efnis er notuð og DOI-númer kemur fram á henni þarf ekki að skrá það nema útgefendur, fræðasvið eða kennarar krefjist þess sérstaklega.

Samkvæmt Chicago-staðli þarf ekki að skrá sérstaklega hvenær heimildir á netinu voru sóttar eða skoðaðar.

Sumir útgefendur, fræðasvið og kennarar gera þó kröfu um að þær upplýsingar komi fram og því eru þær almennt hafðar með í dæmum sem sýnd eru í þessum leiðbeiningum.

Nemendur og öðrum höfundum er bent á að leita ráða hjá kennurum, útgefendum eða þeim sem við á hverju sinni.

Í rafrænum heimildum er ekki alltaf blaðsíðutal til staðar. Þá er best að vísa í kaflaheiti eða titil hlutans. Ef efnisgreinar eru númeraðar er hægt að styðjast við það.

Dæmi 

Begley, Updike, kafli 9.

 

DOI-númer (e. digital object identifier) er endanlegt auðkenni rafræns efnis, svo sem tímaritsgreina og bóka, og fylgir efninu alls staðar þar sem það birtist. DOI-númer samanstendur af tveimur hlutum sem aðgreindir eru með skástriki.

Fyrri hluti númersins segir til um útgefanda og seinni hlutinn skilgreinir einstaka grein í ákveðnu tímariti.

Sýnir samsetningu vefslóðar fyrst kemur doi númer því næst númer útgefanda og að lokum númer greinar.
Myndin sýnir samsetningu vefslóðar með DOI númeri

Framan við DOI-númer er skráð http://dx.doi.org/ og þannig verður til varanlegur tengill fyrir greinina.

Varanlegur tengill greinarinnar „Before Democracy: The Production and Uses of Common Sense, “ eftir Sophiu Rosenfeld sem birtist í tímaritinu The Journal of Modern History er http://dx.doi.org/10.1086/529076

DOI-númer sömu greinar er 10.1086/529076

Með því að slá inn eða afrita DOI-númerið í leitarglugga á vefsíðunnar Crossref.org eða í leitarvél sem styður við DOI-númer er hægt að finna slóð (URL) þar sem greinina er að finna.

Önnur leið til að finna greinina er að setja allan tengilinn inn í leitargluggann á netvafranum.

Oftast er auðvelt að finna DOI-númer á forsíðum rafrænna greina.

Hægt er að kanna hvort grein hafi DOI-númer með því að slá höfund og titil hennar inn í viðeigandi leitarglugga hér http://www.crossref.org/guestquery/.

Í heimildaskrá er æskilegra að skrá DOI-númer en vefslóð ef efnið hefur fengið úthlutað slíku númeri. DOI-númer eru áreiðanlegri en vefslóðir því þau eru varanleg og fylgja efni þótt það færist til á vefnum.

Flestar nýlegar ritrýndar greinar sem koma út á rafrænu formi hafa DOI-númer. Enn er þó talsvert gefið út af rafrænu efni sem ekki hefur DOI-númer. Þá er er skráð vefslóð eða URL til að auðvelda lesanda að finna efnið. Íslenskt efni hefur almennt ekki DOI-númer.

Vefslóð (e. a uniform resource locator) getur leitt lesanda beint að efni þar sem það er að finna á internetinu. Þetta er þó háð því að efnið færist ekki til því vefslóð tengist ekki efninu sjálfu heldur gefur til kynna staðsetningu þess. Með öðrum orðum: Vefslóð er ekki varanleg tenging við ákveðið efni því efni getur flust til eða horfið alveg af netinu.

Vefslóð birtist í slóðarstiku (e. address bar) efst í netvafra. Ef slóð er löng, lengri en það sem nemur einni línu af texta, má oft stytta hana með því að finna betri útgáfu af slóðinni.

Vefslóð þar sem er að finna greinina „Before Democracy: The Production and Uses of Common Sense,“ eftir Sophiu Rosenfeld sem birtist í tímaritinu the Journal of Modern History er http://www.jstor.org/discover/10.1086/529076?uid=3738288&uid=2&uid=4&sid=21104304233373

Segja má að munurinn á vefslóð og DOI-númeri felist í því að vefslóð tengist ákveðinni staðsetningu á netinu en DOI-númer tengist hins vegar efninu sjálfu. Ef efni hefur verið flutt til finnst það ekki með því að nota vefslóð en finnst ef notað er DOI-númer.

DOI-númer eru því áreiðanlegri og varanlegri en vefslóðir og Chicago-staðall mælir með því að rafrænar heimildir séu auðkenndar með DOI-númeri í heimildaskrá frekar en vefslóð, sé þess kostur.