Yfirlestur og frágangur

Frágangur er það fyrsta sem lesendur taka eftir þegar ritgerð er opnuð. Ef frágangur er lélegur og ekki í samræmi við eðlilegar kröfur getur það hæglega dregið athyglina frá efninu og gert það að verkum að höfundur er ekki tekinn alvarlega.

Kannaðu strax í upphafi hverjar kröfurnar eru, annaðhvort hjá kennara eða á heimasíðu viðkomandi deildar í Uglunni.

Í mörgum deildum eru sniðmát fyrir lokaritgerðir og þú þarft að fylgja þeim viðmiðum sem þar er að finna. Sumar deildir hafa engin sniðmát og biðja aðeins um snyrtilegan frágang.

Mikilvægt að gæta samræmis í frágangi, til dæmis í letri og leturstærð kafla og undirkafla. Nauðsynlegt er að lesa vandlega yfir ritgerð áður en henni er skilað.

Hafðu í huga

  • Ekki vanmeta tímann sem fer í yfirlestur. Gott er að geta tekið 1-2 daga í hlé áður en yfirlestur hefst.
  • Ef lesið er af tölvuskjá er gagnlegt að stækka textann jafnmikið og skjárinn leyfir. Einnig getur verið ráð að auka línubil á meðan lesið er yfir.
  • Hafðu augun opin fyrir of miklum endurtekningum.
  • Gefðu þeim villum sérstakar gætur sem þú hefur oft gert áður. 
  • Lestu textann upphátt því að þannig er minni hætta á að þú missir af orðum. Óheppilegt eða klaufalegt orðalag kemur oft ekki í ljós fyrr en texti er lesinn upp.
  • Flettu upp í orðabókum ef þú ert ekki viss um rithátt tiltekins orðs eða merkingu. Með tilkomu rafrænna orðabóka er þetta fljótgert (sjá hlekki neðst á síðunni undir Gagnlegt).
  • Taktu eftir lengd málsgreina og efnisgreina. Gættu þess að þær séu hæfilega langar. Sjá, nánar um efnisgreinar og málsgreinar.
  • Gættu þess að eðlilegt samhengi sé á milli samliggjandi málsgreina og efnisgreina.
  • Ef þið finnið sömu villuna oftar en einu sinni notið þá leitargluggann í ritvinnsluforritinu til þess að leita í öllu skjalinu. 
  • Ef einhverjar spurningar vakna við yfirlesturinn, hafið samband við kennara eða bókið tíma í ritveri.

 

Að yfirlestri loknum er æskilegt að fá einhvern til að lesa yfir lokagerð ritgerðar. Best er að fá einn sem les með tilliti til tungumáls og annan sem les með tilliti til efnis.

Athugið að leiðbeinanda lokaritgerða ber engin skylda til þess að prófarkalesa ritgerðina (þó sumir geri það).