Langar og stuttar tilvísanir
Til eru tvö afbrigði neðanmálsgreinakerfis Chicago-staðals.
Ef heimildarskrá fylgir verki þar sem fram koma allar þær heimildir sem vísað er til, þurfa ekki allar upplýsingar um heimildina að koma fram í tilvísunum. Þá er nóg að skrá stutt form tilvísana því lesandi getur aflað sér þeirra upplýsinga sem þarf til að finna heimildina í heimildaskrá.
Ef heimildaskrá fylgir ekki verki eða inniheldur ekki allar heimildir sem vísað er til þarf að skrá allar upplýsingar um heimildina í fyrsta sinn sem vísað er til hennar.
- Í seinni tilvísunum í sama verk er nóg að skrá stutt form tilvísana. (Sjá dæmi neðar á síðunni.)
Í löngum tilvísunum koma fram allar þær upplýsingar sem annars væru skráðar í heimildaskrá. Ef um rafræna heimild er að ræða er vefupplýsingum bætt við aftan við upplýsingar um útgáfu.
Í stuttum tilvísunum á að skrá nægar upplýsingar til að minna lesanda á fullan titil verks eða leiða hann á réttan stað í heimildaskrá.
- Skráð eru eftirnöfn höfunda, yfirtitill verks og blaðsíðutal.
- Ef höfundar eru einn til þrír eru skráð eftirnöfn þeirra allra.
- Ef þeir eru fleiri en þrír er skráð eftirnafn fyrsta höfundar og o.fl.
Yfirtitill verks er oftast styttur ef hann er lengri en fjögur orð.
Dæmi
1. Paul Hanstedt, „Reforming General Education: Three Reasons to Make Writing across the Curriculum Part of the Conversation.“ Liberal Education 98, nr. 4 (2012): 48, sótt 24. janúar 2014, http://nau.edu/uploadedFiles/Administrative/University_College/Liberal_Studies/_Forms/WritingArticle.pdf.
2. Theresa M. Lillis, Student Writing: Access, Regulation, Desire (London: Routledge, 2001), 27–28.
1. Hanstedt, „Reforming General Education,“ 48.
2. Lillis, Student Writing, 27–28.
Í fyrri útgáfum Chicago var mælt með því að skrá „ibid“ ef vísað var til sömu heimildar tvisvar sinnum eða oftar í röð. Chicago mælir nú gegn því, nema kennarar eða tímarit óski þess sérstaklega.
Þess í stað skal tilvísunin endurtekin en þó má sleppa titli verksins.
1. Farmwinkle, Humor of the Midwest, 241.
2. Farmwinkle, 241.