Tilvísanir og tilvísananúmer

Hlutverk tilvísana er að vísa lesanda til heimildar þar sem hún er skráð í heimildaskrá.

Samkvæmt neðanmálsgreinakerfi Chicago eru tilvísanir skráðar í neðanmáls- eða aftanmálsgreinum. Í meginmáli vísa ofanletruð (e. superscript) númer lesanda á þá tilvísun sem við á hverju sinni.

Tilvísanir eru ýmist skráðar í:

  • neðanmálsgreinum, sem eru neðst á hverri síðu
  • aftanmálsgreinum sem eru þá aftast í hverri grein
  • bókarkafla eða bók

Efsta lína tilvísunar er inndregin.

Skráning og tilvísanir

Ákveðnar upplýsingar eru skráðar í tilvísunum og í ákveðinni röð.

Í tilvísunum koma oftast fram, í þessari röð:

  • nafn höfundar,
  • titill,
  • upplýsingar um útgáfu.

Þessi atriði eru aðskilin með kommum og upplýsingar um útgáfu eru hafðar í sviga.

  • Nöfn höfunda eru skráð með fornafni á undan eftirnafni.
  • Titlar heildarverka eru skáletraðir en titlar hluta úr verki, svo sem kafla eða greinar í tímariti, hafðir innan gæsalappa. Nákvæmt blaðsíðutal í efnið sem vísað er til fylgir í tilvísun.

Í stuttum tilvísunum er aðeins skráð eftirnafn höfundar og ártal.

Tilvísanir sem eru skráðar í neðanmálsgreinum eru merktar með númerum í texta þar sem vitnað er í heimildina. Neðanmálsgreinar eru merktar með sambærilegum númerum.

Hanstedt segir ritun vera flókna,1 Lillis telur áherslu í ritun ekki eiga að vera á málfar og greinamerkjasetningu.2

 

Dæmi

1. Paul Hanstedt. „Reforming General Education: Three Reasons to Make Writing across the Curriculum Part of the Conversation.“ Liberal Education 98, nr. 4 (2012): 48, sótt, 24. janúar 2014, http://nau.edu/uploadedFiles/Administrative/University_College/Liberal_Studies/_Forms/WritingArticle.pdf.

2. Theresa M. Lillis, Student Writing: Access, Regulation, Desire (London: Routledge, 2001), 27-28.

Tilvitnanir eru númeraðar í textanum í þeirri röð sem þær koma fyrir.

Númer í texta eru ofanletruð (e. superscript) en númer við neðanmálsgreinar eru í sömu stærð og tilvísunin. Þetta er þó ekki algilt og fyrirfram skilgreindar útlitsstillingar í ritvinnsuforritum eru alla jafna samþykktar.

Í tilvísananúmerum rafrænna heimilda og slóðum í tilvísunum er stundum hlekkur beint í efnið.

Tilvísananúmer í texta eru staðsett við enda málsgreinar, oftast í lok tilvitnunar.

Númerin eru staðsett á eftir greinarmerkjum með þeirri undantekningu að vera skráð á undan bandstrikum.

Oftast eru númer staðsett eftir að sviga er lokað en fyrir kemur að það á betur við að hafa númerið innan sviga. Þetta á til dæmis við ef tilvitnun á við um ákveðið hugtak innan svigans.

Niðurstaðan var sú að einkunnir nemenda hækkuðu.3 Þetta getur bent til þess að…

Niðurstaðan var sú að einkunnir nemenda hækkuðu4 — þetta getur bent til…

(Þetta samræmist ekki því sem hann sagði í fyrri bók sinni.)5

Það er alvarlegt þegar nemendur eru sakaðir um ritstuld (ritstuldur er þegar höfundur leggur fram verk annarra sem sitt eigið6).

Í tilvísunum eru nöfn íslenskra höfunda þannig skráð að skírnarnafn kemur fyrst, þá eftirnafn.

Kristján Jóhann Jónsson
Bergljót S. Kristjánsdóttir
Sveinn Yngvi Egilsson

Nöfn erlendra höfunda eru skráð með sama hætti í löngum tilvísunum, skírnarnafn fyrst og svo eftirnafn.

Maria Nikolajeva
David Lodge
Kimberley Reynolds

Í stuttum tilvísunum skal skrá skírnarnafn og eftirnafn íslenskra höfunda. Eingöngu skal skrá eftirnafn erlendra höfunda.

 

Heimildaskrá

Í heimildaskrá skal skrá nöfn íslenskra höfunda þannig að fyrst kemur skírnarnafn og svo eftirnafn (t.d. Kristján Jóhann Jónsson). Sé höfundur erlendur skal skrá efnirnafn á undan skírnarnafni (t.d. Nikolajeva, Maria).