Tilvísanir

Vísa skal til heimilda í hvert sinn sem þær eru notaðar, hvort sem vitnað er til efnis eða orðalags. Tilvísun í lesmáli vísar til heimildar þar sem hún er skráð í heimildaskrá. Ef ástæða er til skal geta nánar um hvar tilvitnun er að finna með því geta um blaðsíðutal eða kafla.

Tilvísun í lesmáli er í þrennu lagi:

– Nafn höfundar (eða þess sem kemur í stað höfundar)
– Útgáfuár heimildar
– Blaðsíðutal eða annað sem auðveldar lesanda að finna tilvitnun í heimild

Tilvísun er innan sviga sem kallaður er tilvísunarsvigi.

Taka má hluta tilvísunar út fyrir svigann svo eftir standi aðeins ártal eða blaðsíðutal.

Mynd sem sýnir hluta tilvísunar. Fyrst er nafn höfundar, svo ártal og loks blaðsíðutal. Þetta er allt saman inní sviga.

Mynd 1. Tilvísun með tilvísunarsviga, nafni, ártali og blaðsíðutali.

Hvatt er til að vísa jafnan í blaðsíður þegar ætla má að efnið, sem vísað er til, sé ekki auðfundið.

Þú verður að vísa til blaðsíðu þegar vísað er til orðalags eða myndefnis.

Þegar vitnað er í efni (óbein tilvitnun) er ekki alltaf ástæða til að vísa í blaðsíður. Það á aðallega við í tveimur tilvikum:

  • Vitnað er til heildarniðurstöðu í stuttum formföstum tímaritsgreinum þar sem unnt er ganga að tilvitnun vísri
  • Vitnað er í orðabækur eða önnur uppflettirit sem raðað er í stafrófsröð

Oft er ekki hægt að vísa til blaðsíðutals þegar um ýmsar rafrænar heimildir er að ræða. Þá áð að vísa lesendum sem næst efninu og hægt er, til dæmis með því að vísa í:

  • Fyrirsögn kaflans eða hlutans
  • Númer efnisgreinarinnar (teldu efnisgreinarnar ef þær eru ekki númeraðar)
  • Fyrirsögn kafla eða hluta og númer efnisgreinar

 

Dæmi

(Gecht-Silver og Duncombe, 2015, hlutinn Osteoarthritis).

(Chamberlin, 2014, efnisgrein 1).

(DeAngelis, 2018, hlutinn Musical Forays, efnisgrein 4).

 

Ef fyrirsögn kaflans eða hlutans er of löng er hún stytt og afmörkuð með gæsalöppum.

(Centers for Disease Control and Prevention, 2017, hlutinn „What Can You Do“).