Tilvitnun í orðalag (bein tilvitnun)

Með tilvitnun í orðalag (beinni tilvitnun) er átt við að texti sé tekinn orðrétt upp úr heimild. Þegar það er gert þarf að auðkenna textann sértaklega þannig að lesandi sjái strax að um tilvitnun í orðalag er að ræða.

Þetta er yfirleitt gert með því að afmarka textann innan gæsalappa eða með því að skilja hann frá meginmáli ritgerðar.

Hafa þarf í huga afmörkun tilvitnana í orðalag, staðsetningu gæsalappa, inndrátt, nákvæmni og mögulegar breytingar.

Tilvitnanir í orðalag, sem auðkenndar eru með gæsalöppum eða inndregnar, verða að fylgja frumtexta nákvæmlega að öllu leyti hvað varðar stafsetningu og leturbreytingar.

Gömul stafsetning á að halda sér en leiðrétta má augljósar stafsetningarvillur.

Mælt er með því að tilvitnunum í orðalag sé beitt í hófi. Höfundur á ekki að nota orðréttar tilvitnanir til að segja það sem hann vill sjálfur sagt hafa. Heimild kemur ekki í stað höfundar.

 

Tilvitnanir í orðalag (beinar tilvitnanir) eru oft notaðar í eftirfarandi tilvikum:

  • Þegar vísað er í biblíuna eða önnur trúarrit, lög, reglugerðir eða opinber fyrirmæli, t.d. aðalnámskrá
  • Þegar sérstaklega er verið að taka til umræðu textann sjálfan, skilgreiningu, kenningu, skoðun eða túlkun sem felst í tilvitnun
  • Þegar orðalag er á einhvern hátt sérstakt, hnyttið eða skáldlegt.

Athugið að þetta þýðir ekki að það megi ekki vitna efnislega í ofangreind rit og oft getur það verið æskilegra heldur en að vitna orðrétt í þau.

Tilvitnun styttri en 40 orð

Tilvitnun í orðalag er afmörkuð með „gæsalöppum“ ef hún er styttri en 40 orð.

Kennslu- og uppeldisfræðingar hafa margir fjallað um uppeldi barna og unglinga en eftirfarandi hefur Jón Torfi Jónasson (2006, bls. 40) um málið að segja: „Uppeldismál eru í eðli sínu álitamál og stundum deiluefni sem margir taka mjög alvarlega og þau verða fyrir bragðið gjarnan hitamál.“

Kennslu- og uppeldisfræðingar hafa margir fjallað um uppeldi barna og unglinga en Jón Torfi Jónasson (2006, bls. 40) segir þau einmitt vera „í eðli sínu álitamál og stundum deiluefni sem margir taka mjög alvarlega“.

Það að lesa sögu er ekki ósvipað því að hlusta á sögu en eins og fram kemur hjá Silju Aðalsteinsdóttur (1999, bls. 81) hafa allar frásagnir „sögumann, rödd sem talar við okkur sem lesum og segir okkur frá“.

Silja Aðalsteinsdóttir (1999) segir allar frásagnir hafa „sögumann, rödd sem talar við okkur sem lesum og segir okkur frá“ (bls. 81). Það má því segja að það að lesa sögu sé á margan hátt svipað því að hlusta á sögu.

Athugið að punktur getur verið á undan eða eftir gæsalöppum.
Punktur er á undan gæsalöppum ef hann er hluti af tilvitnun.
Punktur er á eftir gæsalöppum ef hann er ekki hluti af tilvitnun heldur afmarkar orð höfundar.

Þegar vísað er til blaðsíðu á eftir tilvitnun í gæsalöppum er tilvísunin á eftir gæsalöppum en á undan punkti.

Tilvitnun lengri en 40 orð

Ef tilvitnun í orðalag er lengri en 40 orð er hún afmörkuð sem sérstök efnisgrein, inndregin og stundum með þéttara línubili og/eða minna letri. Ekki skal nota gæsalappir.

Uppeldismál eru í eðli sínu álitamál og stundum deiluefni sem margir taka mjög alvarlega og þau verða fyrir bragðið gjarnan hitamál. Þau eru líka að mörgu leyti í eðli sínu pólitísk, þótt þau séu ekki nærri alltaf bundin hefðbundinni flokkapólitík. Þau sýna líka betur en margt annað hvað er efst á baugi í huga fólks og spegla því vel hvað er stöðugt og hvað breytilegt í málaflokknum og eru þannig áhugaverður mælikvarði á stöðugleikann. (Jón Torfi Jónasson, 2006, bls. 40)

Fram yfir 1930 voru einungis skrifaðar stuttar sögur handa börnum á Íslandi og yfirleitt gefnar út nokkrar saman, ævintýri, bernskuminningar og hvunndagssögur af ýmsum börnum eða með eitt barn sem aðalpersónu. Upp úr 1930 verður umtalsverð breyting á því, og má tengja þá breytingu við þjóðfélagsþróunina og þróunina í bókmenntum okkar yfirleitt. (Silja Aðalsteinsdóttir, 1981, bls. 149)

Athugið að punkturinn í lok tilvitnunar á að vera á undan tilvísanasviganum.

Allar breytingar á tilvitnun í orðalag verður að auðkenna.

Ef gerðar eru breytingar á beinni tilvitnun skulu þær alltaf afmarkaðar með hornklofa [ ]. Breytingar geta til dæmis falist í því að bæta við skýringu á orði, skipta út hástaf fyrir lágstaf, skipta út lágstaf fyrir hástaf eða orði fyrir annað orð. Úrfellingar eru táknaðar með þrípunkti . . .

Ef bætt er við skýringu á orði:

„Starfshættir skólanna [leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla] skulu mótast af umburðarlyndi og jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð.“

„Hugmyndir hans [þ.e. Sólmundar] hafa haft mikil áhrif.“

Ef skipt er út hástaf og lágstaf eða orði fyrir annað orð:

„[G]átur [Heiðreks]“

Eftirfarandi lausn þótti „[t]il eftirbreytni“

Úrfellingar eru táknaðar með þrípunkti:

Höfð eru bil á milli punkta. Ef úrfelling er á milli tveggja setninga er fjórða punktinum bætt við til að gefa það til kynna. Almennt eru úrfellingar aðeins táknaðar inni í tilvitnunum en ekki í upphafi eða við lok þeirra, nema hætta sé á að annars verði tilvitnun misskilin. Úrfellingar úr eigindlegum viðtalsgögnum má tákna á sama hátt.

Í námskrá segir að „[f]agmennska kennara [snúist] um nemendur . . . “

Þá má benda á að baunir þykja bæði „heilnæmar“ . . . og „mikið lostæti“ eftir því sem í bókinni segir.

Breyta má augljósum innsláttar- og/eða stafsetningarvillum í orðréttum tilvitnunum. Augljósar prentvillur eru þó stundum teknar upp óbreyttar í texta en þá oft auðkennda með [svo] eða [sic] í hornklofa á eftir orðinu.

Álitsgjafi segir „ástæður þessa aukljósar [svo] og áberandi“.

Framherjinn var, eftir því sem í fréttinni segir, „rangstærður [sic] og virtist ekki gera sér grein fyrir því“.