Tilvitnun í efni (óbein tilvitnun)

Upplýsingar eða efnisatriði sem fengin eru úr heimild og gert grein fyrir með eigin orðum eru kallaðar „tilvitnanir í efni“ eða „óbeinar tilvitnanir“. Þetta er langalgengasta notkun heimilda í öllum fræðilegum ritsmíðum.

Þegar vísað er efnislega til annarrar ritsmíðar og höfundur umorðar eða fellir efni að því sem hann sjálfur skrifar verður að gæta þess að að hvorki afbaka né breyta merkingu þess texta sem hann vísar til.

Á blaðsíðu 40 í riti eftir Jón Torfa Jónasson sem kom út árið 2006 er eftirfarandi texta að finna:

Uppeldismál eru í eðli sínu álitamál og stundum deiluefni sem margir taka mjög alvarlega og þau verða fyrir bragðið gjarnan hitamál. Þau eru líka að mörgu leyti í eðli sínu pólitísk, þótt þau séu ekki nærri alltaf bundin hefðbundinni flokkapólitík.

 

Unnin er efnisleg tilvitnun upp úr þessum texta sem gæti verið svona:

Jón Torfi Jónasson (2006, bls. 40) segir uppeldismál vera álitamál sem taka verði alvarlega, auk þess sem þau séu oft hitamál og í eðli sínu pólitísk.

 

Hér er upprunalegi textinn umorðaður og styttur en meginhugsunin er enn sú sama. Hér er því um að ræða tilvitnun í efni/óbeina tilvitnun.

Tilvísunin segir okkur svo hver skrifaði þetta og hvenær og þar sem blaðsíðutals er getið sjáum við einnig hvar þessar upplýsingar er að finna í heimildinni. Ef við flettum heimildinni upp í heimildaskrá fáum við frekari upplýsingar um hana.