Heimildaskráning og hjálpargögn

Þær heimildir sem er vísað til í fræðilegri ritgerð þarf að setja í heimildaskrá. Í heimildaskrá eiga hins vegar ekki að vera neinar aðrar heimildir en þær sem vísað er til í textanum. Heimild fer því ekki í heimildaskrá af þeirri ástæðu einni að höfundur las hana og hafði gagn af henni.

Til eru ýmis kerfi í heimildaskráningu en þau eru þó öll eins í grundvallaratriðum og sýna nokkurn veginn sömu upplýsingar. Til dæmis þarf að skrá eftirfarandi upplýsingar um grein í tímariti óháð því hvaða kerfi er notað: nafn höfundar, ártal, heiti greinarinnar, heiti tímaritsins, árgang þar sem greinin birtist og blaðsíðutal greinarinnar. Ef tímaritið kemur út oftar en einu sinni á ári eru yfirleitt upplýsingar um tölublað líka.

Á sumum fræðasviðum eða námsgreinum innan HÍ er ætlast til þess að nemendur noti tiltekið kerfi í heimildaskráningu en á öðrum sviðum eða námsgreinum hafa þeir meira val. Því er mikilvægt að nemendur kynni sér vel til hvers er ætlast af þeim í þessum efnum, einkum þegar um lokaritgerð er að ræða.

Heimildaskráning er nauðsynleg í fræðilegum ritgerðum því sá sem les ritgerðina þarf að geta sannreynt þær staðhæfingar sem þar koma fram. Því þarf lesandinn að hafa nægar upplýsingar í höndunum til að geta fundið viðkomandi heimild og þær eiga að koma fram í heimildaskrá. Það er ekki alltaf augljóst hvernig á að skrá tiltekna heimild en þá verður nemandinn að reyna að finna hvað passar best miðað við heimildaskráningakerfið sem hann er að nota. Einnig getur verið álitamál hversu ýtarleg skráningin á að vera en mælt er með því að skrá heimild eins nákvæmlega og kostur er.

Hjálpargögn við heimildaskráningu

American Psychological Association. (2019). Publication manual of the American Psychological Association. (7. útg.). American Psychological Association.

Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson. (2007). Gagnfræðakver handa háskólanemum. (4. útg.). Háskólaútgáfan.

Höskuldur Þráinsson. (2015). Skrifaðu bæði skýrt og rétt. Fræðileg skrif, ritrýni og ritstjórn. Málvísindastofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan.

Ingibjörg Axelsdóttir og Þórunn Blöndal. (2010). Handbók um ritun og frágang. (10. útg.). Mál og menning.

The Chicago manual of style. (17. útg.). (2017). The University of Chicago press.

 

APA-vefurinn
Leiðbeiningar á íslensku um frágang heimilda samkvæmt APA-staðli.

Chicago-vefurinn
Leiðbeiningar á íslensku um frágang heimilda samkvæmt Chicago-staðli.

Áttaviti Landsbókasafns
Leiðarvísar um heimildir í einstökum greinum, heimildavinnu og aðrar hagnýtar leiðbeiningar.

Leiðbeiningar um frágang heimilda samkvæmt APA-staðli á ensku í gegnum Purdue Online Writing Lab

Stuttar leiðbeiningar um Chicago-staðalinn á ensku.