Tölfræði í lesmáli
Töflur og myndir gera höfundi kleift að setja fram mikið af upplýsingum á skýran og auðskiljanlegan hátt. Erfitt getur verið að greina á milli hvað er tafla og hvað er mynd. Einfalda reglan er sú að töflur einkennast af dálkum og röðum.
Myndir
- línurit
- gröf
- teikningar
- ljósmyndir
- aðrar útskýringar án texta
Töflur
- gildum/upplýsingum raðað á skipulegan hátt í dálka og raðir
Myndir og töflur eru oftast óþarfar í inngangs- og umræðukafla greinar en oft er ástæða til að nota myndræna framsetningu í niðurstöðukafla.
Til þess að töflur og myndir virki sem best skiptir máli að vanda til verksins. Góð myndræn framsetning á gögnum getur verið áhrifarík leið til að koma upplýsingum á framfæri.
- Ef bera á saman myndir skal staðsetja þær nálægt hvor annarri og passa að ásar séu sambærilegir
- Staðsetja merkingar þannig að ekki fari á milli mála fyrir hvaða gildi þær standa
- Nota skýrt og nægilega stórt letur
- Nægar upplýsingar þurfa að koma fram til þess að myndin eða taflan geti staðið ein, án frekari útskýringa
- Ekki nota óþarfa skreytingar
Ekki er ástæða til að búa til töflur ef upplýsingarnar er hægt að setja fram í lesmáli á skýran og einfaldan hátt.
Myndir og töflur skal merkja með númeri, eftir þeirri röð sem þær birtast fyrst í textanum, óháð því hvort nánari umfjöllun um þær komi fram síðar í lesmálinu. Myndir eru númeraðar fyrir neðan myndina en töflur fyrir ofan.
Ef notað er myndefni annarra þarf í flestum tilfellum að fá skriflegt samþykki höfundar og vísa til þeirra eins og annarra heimilda.
Til eru margar tegundir mynda, til dæmis línurit, gröf, teikningar, ljósmyndir og fleira. Nokkur grundvallaratriði eru þau sömu í framsetningu þeirra. Meta þarf gildi þeirra upplýsinga sem myndinni er ætlað að veita. Ef myndin er ekki annað en endurtekning á því sem kemur fram í lesmáli er hún óþörf. Mynd er ekki alltaf besta leiðin til að koma upplýsingum á framfæri, stundum er tafla betri eða texti. Myndir þurfa að sýna aðalatriði, vera einfaldar, skýrar, auðskiljanlegar, í samhengi og veita mikilvægar upplýsingar. Flóknar myndir eru oft ekki til að einfalda og eru óþarfar.
Dæmi um vel gerða mynd (vinstri) og misheppnaða mynd (hægri):
Vel heppnuð mynd
Misheppnuð mynd
Ef tölfræðiniðurstöður eru settar fram í töflu er vísað í töfluna í texta. Sagt er frá því helsta sem fram kemur í töflunni, það á ekki að endurtaka í lesmáli allar þær upplýsingar sem er að finna í töflunni. Mikilvægt er að auðvelt sé að lesa úr töflu. Greina þarf á einfaldan hátt á milli dálka og raða. Línur eru notaðar til að afmarka fyrirsagnir, dálkaheiti og samtölur. Í öðrum tilfellum er almennt nóg að aðgreina dálka og raðir með bili. Þær upplýsingar sem koma fram skal takmarka við það sem skiptir máli. Röð þeirra atriða sem fram koma ræðst af því hvað töflunni er ætlað að sýna. Gildi sem koma fram í töflunni og á að bera saman eiga að vera hlið við hlið. Meta þarf hversu marga aukastafi þarf að sýna eftir þeim gögnum sem verið er að kynna. Ef töflu er ætlað að meta námsárangur nemendahóps er öllum einkunnum nemenda raðað eftir gildum. Ef verið er að bera saman námsárangur eftir kyni, er einkunnum skipt eftir kyni og einkunnum stúlkna og drengja raðað hlið við hlið til að gera samanburð auðveldan. Sömu upplýsingar eiga ekki að koma fram í fleiri en einni töflu, betra er að sameina töflur.
Dæmi um vel gerða töflu (vinstri) og misheppnaða töflu (hægri):
Vel heppnuð tafla
Misheppnuð tafla