Beygingar

Íslenska hefur ríkulegt beygingakerfi sem nær yfir marga orðflokka:

  • nafnorð
  • sagnorð
  • lýsingarorð
  • fornöfn
  • og (sum) töluorð

Í sumum tilvikum hefur málnotandinn val á milli ólíkra beygingarmynda. Í formlegu málsniði á helst að velja þá beygingarmynd sem á sér lengri sögu í málinu. Það er ekki hægt að gera upp á milli beygingarmynda sem eru jafngamlar í málinu.

Dæmi

Í formlegu málsniði eru nafnorð beygð á hefðbundinn hátt. Nokkur dæmi um þetta:

  • mæta til skólasetningar (ekki skólasetningu)
  • vegna lagningar Sundabrautar (ekki lagningu)
  • hundruð manna (ekki hundruðir)
  • Ég nota alltaf þennan kíki. (ekki kíkir)
  • Hann þekkir bróður minn og systur. (ekki bróðir og systir)
  • Þessi kýr mjólkar vel. (ekki kú)
  • Þú átt að nota hægri höndina. (ekki hendina)

 

Sagnir á líka að beygja á hefðbundinn hátt í formlegu málsniði. Nokkur dæmi um vandbeygðar sagnir má sjá hér: 

  • Ég vil endilega fara (ekki vill)
  • Þetta dugir alveg (ekki dugar)
  • Hann ann engum sannmælis (ekki unir)
  • Hún réð því sem hún vildi (ekki réði)
  • Sigga ólst upp í sveit (ekki aldist)
  • Þetta hefði getað valdið slysi (ekki ollið)
  • Árásinni var hrundið (ekki hrint)
  • Flokkurinn getur höggvið á hnútinn (ekki hoggið)

 

Ýmis dæmi eru um að tvær ólíkar beygingarmyndir gegni sama hlutverki og eigi báðar jafnmikinn rétt á sér í formlegu málsniði. Til dæmis er ekki hægt að gera upp á milli eftirfarandi beygingarmynda á grundvelli málhefðar: 

Þágufall eintölu karlkyn: 

  • biskupi – biskup
  • dúki – dúk
  • geimi – geim
  • lauki – lauk
  • stóli – stól 
  • tóni – tón
  • þjófi – þjóf

Eignarfall eintölu karlkyn: 

  • Haralds – Haraldar
  • Höskulds – Höskuldar
  • Þorvalds – Þorvaldar
  • Þorvarðs – Þorvarðar

Nefnifall fleirtölu kvenkyn: 

  • lestir – lestar
  • stangir – stengur

Nefnifall fleirtölu karlkyn:

  • Japanir – Japanar