Efnisgreinar og málsgreinar

Rétt eins og ritgerð skiptist niður í kafla og undirkafla, skiptist hver kafli/undirkafli ritgerðar niður í málsgreinar og efnisgreinar.

  • Málsgrein hefst á stórum staf og endar á punkti, upphrópunarmerki eða spurningamerki.

Efnisgrein er afmörkuð með greinaskilum eða auknu línubili og þú verður að velja hvora aðferðin þú notar. Efnisgreinar eru mislangar og sumar eru jafnvel ekki meira en tvær málsgreinar.

    Fyrsta málsgrein í nýrri efnisgrein er lykilsetning. Hún verður að vera skýr og ná vel utan um það sem fjallað er um í efnisgreininni.

    Í stuðningssetningum koma nánari upplýsingar, tekin eru dæmi, vitnað í heimildir og atriði borin saman. Oft er stuðningssetningum raðað eftir mikilvægi eða tímaröð.

    Efnisgrein lýkur á lokasetningu sem hnykkir á því sem um hefur verið fjallað og tengir við næstu efnisgrein.

    Efnisgreinar eru þannig eins og smækkuð gerð kafla eða ritgerðar, það er hver efnisgrein hefur upphaf, miðju og endi. Þá er einnig mikilvægt að rökrétt framhald sé á milli málsgreina innan hverrar efnisgreinar.

    Dæmi

    Dæmi um uppbyggingu efnisgreinar þar sem lykilsetning og lokasetning eru merktar með hornklofum:

    Skattahækkunaráform ríkisstjórnarinnar eru eins og blaut tuska framan í fólkið í landinu. [lykilsetning] Nú þegar á venjulegt fólk nóg með sitt og fjölmargir hafa misst vinnuna. Laun þeirra sem enn eru í vinnu hafa lækkað. Afborgarnir lána hafa hækkað. Verðlag er nú hærra en áður og vextir eru enn himinháir. Allt hefur þetta leitt til þess að fjölskyldurnar í landinu eiga mun erfiðara en áður með að greiða af lánum sínum. Mörgum hefur reynst það ómögulegt og horfa nú fram á að missa heimili sín. Því verður að telja þessa ákvörðun skjóta skökku við fyrri loforð ríkisstjórnarinnar. [lokasetning]

    Lykilsetningin er nokkurs konar yfirlýsing. Stuðningssetningarnar útskýra þá yfirlýsingu og í lokasetningu er dregin ályktun sem kemur heim og saman við fyrstu lykilsetningu á grundvelli þeirra röksemda sem færðar hafa verið í stuðningssetningum.

    Æskileg lengd efnisgreina er um 4-15 línur eða um 3-4 efnisgreinar á blaðsíðu. Of margar efnisgreinar eru til marks um að textinn sé sundurlaus og myndi ekki sannfærandi heild.

    Stundum er hægt að lengja of stuttar efnisgreinar með því að sameina tvær efnisgreinar. Á sama hátt er líka æskilegt að brjóta of langar efnisgreinar upp í tvær eða fleiri efnisgreinar. Efnisgreinar eiga að sýna ákveðin skil í efninu en jafnframt verður ný efnisgrein að vera eðlilegt framhald þeirrar sem fer á undan. Þetta eykur líkurnar á því að textinn flæði vel.

    Í þessu handriti er einnig Heiðarvíga saga og má vera að skinnbókin hafi átt að höfða sérstaklega til innansveitarmanna í Borgarfirði, verið gerð fyrir vestlenska höfðingja. Ég mun hér á eftir ekki rekja nákvæmlega önnur frávik í textagerð A, enda þótt það væri freistandi. Í nokkrum tilvikum er þar greint nákvæmar frá höfðingjum Borgarfjarðar en í textagerð B. Það bendir til þess að Gunnlaugs saga hafi verið lesin upp þar sem samanburði borgfirskra höfðingja var vel tekið.

    Það eru einkum fjórir atburðir í Gunnlaugs sögu sem skera sig úr frásögnum annarra Íslendinga sagna af svipuðum viðburðum og vísa veginn til skilnings á sögunni, enda þótt höfundurinn geri hvergi ráð fyrir því að undirliggjandi merking hennar verði fundin eins og höfundar riddarasagna. Þessi fjögur atvik eru: 1) draumur Þorsteins Egilssonar; 2) kvonbænir Gunnlaugs; 3) Gunnlaugur á Hlöðum hjá Eiríki Hákonarsyni; 4) hólmgöngur Gunnlaugs og Hrafns.

    Draumur Þorsteins gegnir því hlutverki strax í upphafi að segja fyrir hvernig fara mun fyrir söguhetjunum…

    Í fyrstu efnisgrein er fjallað um tiltekið handrit og jafnframt vísað í undanfarandi efnisgrein (með orðunum Í þessu handriti er einnig…). Næsta efnisgrein hefst á umfjöllun um Gunnlaugs sögu og lýkur á upptalningu á fjórum atvikum í sögunni. Þriðja efnisgrein hefst á útskýringu á fyrsta atvikinu í upptalningunni. Í þessu stutta broti er þannig farið á rökréttan hátt úr einu umfjöllunaratriði í annað: handrit > sagan > eitt atriði í sögunni.

      Ýmis orð eða orðasambönd er hægt að nota til að tengja saman setningar eða málsgreinar og bæta þannig flæði textans:

      • af því að
      • ef
      • enda
      • þó að
      • til þess að
      • vegna
      • þrátt fyrir
      • annars vegar… hins vegar…
      • sem fyrr segir
      • enn fremur
      • við þetta má bæta
      • sem dæmi má nefna
      • engu að síður
      • þar að auki