Uppbygging ritgerðar

Ákveðin viðmið gilda um uppbyggingu ritgerða, hvort sem þær eru langar eða stuttar. Fræðilegar ritgerðir skiptast í inngang, meginmál og lokaorð. Inngangur og lokaorð eru aðeins lítill hluti ritgerðarinnar en meginmál skiptist yfirleitt i nokkra kafla, sjá ritunarferli.

Eðlilegt er að hefja meginmálið á almennri kynningu og yfirliti um það helsta sem hefur verið skrifað um efnið. Einnig er gott að nefna það sem væri fróðlegt að vita um efnið en hefur ekki verið rannsakað.

Umræða um stöðu þekkingar á viðfangsefni ritgerðarinnar þarf að vera vönduð því hún á að hjálpa lesandanum að átta sig á því fræðilega samhengi sem ritgerðin er hluti af.

 

Dæmi

Ritgerð fjallar um æsku Grettis eins og henni er lýst í Grettis sögu.

Eðlilegt væri þá fjalla lítillega um bókmenntagreinina Íslendingasögur, frá hvaða tímabili sagan er og setja hana í bókmenntasögulegt samhengi. Síðan væri eðlilegt að fjalla almennt um söguna sjálfa í stuttu máli áður en meginefnið er krufið til mergjar.

Ritgerð fjallar um áhrif snjallsíma á ástarsambönd.

Hér þyrfti ekki að útskýra í löngu máli hvað snjallsími er en mikilvægt væri að segja frá rannsóknum á áhrifum snjallsímavæðingar. Óhjákvæmilegt væri að skýra tilgang og stöðu samfélgasmiðla í þessu samhengi. Þá þyrfti að gera grein fyrir aðferðafræði rannsóknarinnar og rökstyðja hana áður en sjónum væri beint að áhrifum snjallsíma á ástarsambönd.