Chicago-staðall

Siðareglur, höfundarréttur og tillitsemi við lesendur krefjast þess að höfundar geri grein fyrir því hvaðan tilvitnanir, hugmyndir, skoðanir og staðreyndir, sem ekki teljast til almennrar þekkingar, eru fengnar.

Mismunandi er hvernig gerð er grein fyrir þessu eftir fræðasviðum, kröfum útgefenda, höfundum sjálfum og fer eftir því um hvers konar verk ræðir.

Óháð því hvaða leið er valin er grundvallaratriðið og tilgangur tilvísana og heimildaskráningar alltaf sá sami, það er að segja að veita lesanda nægar upplýsingar til að geta fundið það efni sem höfundur vitnar í, hvort sem um er að ræða útgefið eða óútgefið efni, á prentuðu eða rafrænu formi.

Vísun í heimildir og skráning þeirra þarf því að vera einföld og framsetning og skipulag að fylgja reglu svo lesandi sé ekki í vafa um hvaða upplýsingar eru fengnar úr heimild og hvað er frá höfundi sjálfum.

Heimildaskráning þarf að vera nákvæm svo að lesandi geti með lágmarksfyrirhöfn fundið heimildina og þann stað þar sem efnið var fengið.

Til eru ýmsar aðferðir eða kerfi til að vísa í heimildir og skrá þær. Hvert þeirra hefur sína kosti og galla og henta fyrir ólík fræðasvið og tegundir verka.

Kerfið sem hér er kynnt er notað í mörgum deildum Háskóla Íslands og kallast Chicago-staðall. Nýjustu útgáfu Chicago-staðals er að finna í 17. útgáfu The Chicago Manual of Style.

Chicago-staðall tekur til tveggja tegunda heimildaskráningarkerfa.

  • Annars vegar kerfi þar sem notaðir eru tilvísanasvigar í meginmáli með heimildaskrá
  • Hins vegar kerfi þar sem tilvísanir eru staðsettar í neðanmáls- eða eftirmálsgreinum
  • Aftast er svo heimildaskrá

Leiðbeiningarnar á þessum vef miðast við síðarnefnda kerfið.

Kerfið er hér kallað neðanmálsgreinakerfi og til einföldunar er ekki fjallað sérstaklega um aftanmálsgreinar. Um þær gilda þó nákvæmlega sömu reglur og neðanmálsgreinar að því undanskildu að þær eru staðsettar aftast í verki en ekki neðst á blaðsíðum meginmáls. Í ritvinnsluforritum er einfalt að beyta neðanmálsgreinum í aftanmálsgreinar.

Chicago-staðallinn er mjög sveigjanlegur og gerir þér kleift að skrá bæði óhefðbundnar heimildir og athugasemdir um þær heimildir sem notaðar eru. Vegna þessa sveigjanleika er staðallinn vinsæll og mikið notaður í hugvísindum.

Í neðanmálsgreinakerfi Chicago-staðalsins eru tilvísanir í heimildir skráðar í neðanmálsgreinum, helst með heimildaskrá í lokin, með hangandi inndrætti á undan atriðaorðaskrá. Tilvitnanir eru merktar og tölusettar í lesmáli í samræmi við tilvísanir.

Ef heimildaskrá fylgir koma þar fram allar upplýsingar um heimildina og því nóg að skrá stuttar tilvísanir neðanmáls.

Ef heimildaskrá fylgir ekki þarf hins vegar að skrá allar upplýsingar um heimildina í langri tilvísun í fyrsta sinn sem vísað er til hennar, eftir það er nóg að skrá stuttar tilvísanir.

Eftirtaldir skráningarliðir koma oftast fram í heimildaskrá í þessari röð:

  • nafn höfundar
  • titill 
  • upplýsingar um útgáfu

Reglur kerfisins miðast mjög mikið við bandarískt samfélag og enska stafsetningu og málnotkun. Leiðbeiningarnar á þessum vef eru staðfærðar að íslenskum þörfum.

Við aðlögun neðanmálsgreinakerfis Chicago-staðalsins að íslenskum venjum og þörfum komu upp ýmis álitamál. Stundum var ekki hægt að fylgja staðlinum að öllu leyti og taka þurfti afstöðu í mörgum málum. Glöggir lesendur munu því vafalítið rekast á frávik frá því sem þeir eru vanir.

Vakin skal athygli á því að þótt hér séu settar fram ýmsar reglur varðandi meðferð og skráningu heimilda er alltaf um einhver álitamál að ræða.

Nemendur eru hvattir til að spyrja kennara sína hafi þeir einhverjar spurningar og kennarar sömuleiðis hvattir til að láta nemendur vita ef þeir vilja víkja frá leiðbeiningunum að einhverju leyti.