Afmörkun efnis
Mikilvægt er að afmarka vel viðfangsefni ritgerðar strax í upphafi. Þó getur verið nauðsynlegt að þrengja efnið enn frekar þegar líður á skrifin.
Of vítt efni leiðir af sér ómarkvissa og yfirborðskennda umfjöllun og því er alltaf betra að fjalla um vel afmarkað viðfangsefni á skýran og greinargóðan hátt. Afmörkun hefur einnig þann tilgang að spara tíma og koma í veg fyrir að heimildum sé safnað af handahófi.
Til að afmarka viðfangsefnið er nauðsynlegt að setja fram rannsóknarspurningu snemma í ferlinu. Til að móta spurninguna getur verið gagnlegt að setja efnið upp á eftirfarandi hátt:
- Ég ætla að rannsaka X … [X = viðfangsefni]
- og komast að því hver/hvað/hvenær/hvar/hvort/hvers vegna/hvernig … [= nánari útlistun á viðfangsefni og ástæða rannsóknar]
- til þess að … [= markmið rannsóknar].
Dæmi
Dæmi um rannsóknarspurningar:
- Hvað leiddi til þess að fólk hafði áhuga á og keypti Omaggio-blómavasann frá Kähler á árunum 2014 og 2015?
- Hver eru viðhorf grunnskólakennara á Íslandi til lýðræðis í skólastarfi? Er grunnskólinn sem stofnun reiðubúinn til þess að efla lýðræði í skólastarfi á Íslandi?
- Hver er reynsla aðstandenda af stuðningi heilbrigðiskerfisins eftir sjálfsvíg ástvinar?
- Er munur á lyfjanotkun aldraðra eftir búsetu?
- Hvaða aðferðir nýta íslenskir tónlistarmenn til markaðssetningar á netinu?
Rannsóknarspurning þarf að vera fræðilegs eðlis og kalla á greiningu á viðfangsefninu. Spurningin má því t.d. ekki vera þannig að hægt sé að svara henni með einfaldri upptalningu.
Dæmi um það hvernig viðfangsefni getur mótast í ritgerðaskrifum má sjá á eftirfarandi mynd.
Nemandi sem hefur óljósa hugmynd um að skrifa ritgerð tengda fatahönnun getur farið ýmsar leiðir til þess að þrengja efnið.
Fyrst getur verið gott að þrengja efnið eftir ákveðnu tímabili eða landsvæði.
Næsta skref er ákveðin nálgun á tímabil eða landsvæði, t.d. einhver tiltekin áhrif eins og sjá má á myndinni. Þá kann að koma í ljós að efni sé enn of vítt eða höfundur fái meiri áhuga á einu sviði þess en öðru.
Þannig gæti efni um íslenska fatahönnun endað sem ritgerð um íslenska þjóðbúninginn eða strauma í fatahönnun á 21. öldinni.
Rannsóknarspurningin er ekki óumbreytanleg. Eftir því sem vinnu við rannsókn vindur fram þarf hugsanlega að endurskoða rannsóknarspurninguna.
Það er líka algengt að höfundur setji fram nokkrar rannsóknarspurningar en þær þurfa þá að vera nátengdar, t.d. þannig að ekki sé hægt að svara einni spurningunni nema annarri sé líka svarað.