Heimildir úr stjórnsýslu
Reglur um hvernig á að vísa til heimilda úr stjórnsýslu eru mjög misjafnar eftir löndum. Hér er mælt með að nota sama skráningarkerfi og við Lagadeild Háskóla Íslands.
Ef lög, reglugerðir, önnur stjórnvaldsfyrirmæli og dómar koma fram í texta ritsmíðar þarf ekki að setja inn tilvísun.
Lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli þurfa ekki að koma fram í heimildaskrá, en taka þarf fram dóma í sérstakri dómaskrá, sem hefst á nýrri síðu á eftir heimildaskrá.
Enginn munur er á löngum tilvísunum, stuttum tilvísunum og skráningu í dómaskrá.
Dæmi
Til laga skal vísa með þeim hætti að nefnt sé nafn laganna sem og númer. Valkvætt er hvort nafnið eða númerið komi á undan.
Dæmi
Lög um þjónustukaup nr. 42/2000.
Lögum nr. 84/2007 um opinber innkaup.
Þegar vísað er til lagagreina eða einstakra þátta þeirra skal nota eftirfarandi skammstafanir:
- Grein: gr.
- Málsgrein: mgr.
- Málsliður: málsl.
- Töluliður: tölul.
Þegar vísað er til málsliðar eða töluliðar í tiltekinni málsgrein lagagreinar skal vísa til málsliðarins eða töluliðarins fyrst, þá málsgreinarinnar og loks greinarinnar.
Dæmi
3. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.
Þegar það sem vísað er til er að finna í bókstafslið skal vísa til a-liðar, b-liðar o.s.frv. Líkt og í tilviki málsliða og töluliða kemur sú tilvísun á undan tilvísun í viðkomandi málsgrein/grein.
Dæmi
b-liður 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Um tilvísanir í reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli gilda sömu reglur og greinir um lög.
Dæmi
3. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.
a-liður 3. gr. reglugerðar nr. 548/2008 um heilbrigðisskrár.
Þegar vísað er til gerða á sviði Evrópuréttar skal tilgreina tegund gerðarinnar (tilskipun/reglugerð), og síðan ártal og númer hennar
Dæmi
Tilskipun 2003/33/EB.
Um tilvísanir til einstakra greina, málsgreina o.s.frv. gilda sömu reglur og um lög.
Dæmi
1. tölul. 6. mgr. 22. gr. reglugerðar 2004/809/EB.
Tilvísanir til hæstaréttardóma skulu vera skáletraðar.
Hafi dómur verið birtur í dómasafni Hæstaréttar, en ekki á vefsíðu Hæstaréttar (http://www.haestirettur.is), skal nota skammstöfunina Hrd., þá ártal dómsins, svo kommu og loks blaðsíðutal fyrstu síðu dómsins í dómasafni.
Dæmi
Hrd. 1998, bls. 4076.
Hafi dómur verið birtur í dómasafni Hæstaréttar, en er auk þess birtur á vefsíðu Hæstaréttar (dómar eftir 1. janúar 1999), skal til viðbótar framangreindu geta númers málsins innan sviga.
Dæmi
Hrd. 2000, bls. 1534 (12/2000).
Hafi dómur eingöngu verið birtur á vefsíðu Hæstaréttar (er enn óbirtur í dómasafni) skal geta dagsetningar dómsins og málsnúmers innan sviga.
Dæmi
Hrd. 1. mars 2007 (278/2006).
Tilvísanir til héraðsdóma skulu vera skáletraðar. Þær skulu hafa að geyma skammstöfun dómstólsins, dagsetningu dómsins og málsnúmer innan sviga.
Dæmi
Hérd. Rvk. 14. júní 2004 (E-129/2004).
Skammstafanir héraðsdómstólanna skulu vera með eftirfarandi hætti:
Hérd. Rvk. (Héraðsdómur Reykjavíkur)
Hérd. Reykn. (Héraðsdómur Reykjaness)
Hérd. Vestl. (Héraðsdómur Vesturlands)
Hérd. Vestfj. (Héraðsdómur Vestfjarða)
Hérd. Norðvest. (Héraðsdómur Norðurlands vestra)
Hérd. Norðeyst. (Héraðsdómur Norðurlands eystra)
Hérd. Austl. (Héraðsdómur Austurlands)
Hérd. Suðl. (Héraðsdómur Suðurlands)
Tilvísanir til álita umboðsmanns Alþingis skulu vera skáletraðar. Þær skulu hafa að geyma skammstöfunina UA, dagsetningu álitsins og málsnúmer.
Dæmi
UA 29. desember 2000 (2891/1999).
Tilvísanir til úrskurða og annarra úrlausna stjórnvalda skulu vera skáletraðar. Þær skulu hafa að geyma nafn úrlausnarinnar og stjórnvaldsins, dagsetningu úrlausnarinnar og málsnúmer.
Dæmi
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 5. mars 2008 (1/2008).
Úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála 4. mars 2008 (11/2007).
Tilvísanir til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu skulu vera skáletraðar. Þær skulu hafa að geyma skammstöfunina MDE, nafn málsins (með v. þýtt sem gegn og íslenskri þýðingu á nafni ríkisins), dagsetningu dómsins og málsnúmer.
Dæmi
MDE, Þorgeir Þorgeirson gegn Íslandi, 25. júní 1992 (13778/88).
MDE, Nikula gegn Finnlandi, 21. mars 2002 (31611/96).
Í tilviki ákvörðunar um meðferðarhæfi skal samskonar tilvitnun notuð að undanskildu því að tilgreint er í upphafi að um slíka ákvörðun sé að ræða.
Dæmi
Ákv. MDE, Kjartan Gunnarsson gegn Íslandi, 20. október 2005 (4591/04).
Samskonar tilvitnun skal nota í tilviki ákvarðana Mannréttindanefndar Evrópu, að öðru leyti en því að Mannréttindanefndin er skammstöfuð sem MNE.
Dæmi
Ákv. MNE, Ásmundur Jónsson o.fl. gegn Íslandi, 21. október 1998 (41242/1998).
Sama gildir í tilviki skýrslna Mannréttindanefndar Evrópu að undanskildu því þar er tilgreint í upphafi að um skýrslu sé að ræða.
Dæmi
Skýrsla MNE, Jón Kristinsson gegn Íslandi, 8. mars 1989 (12170/86).
Tilvísanir til dóma dómstóls EB skulu vera skáletraðar. Þær skulu hafa að geyma skammstöfunina EBD, málsnúmerið, ártal og blaðsíðu dómsins í European Court Reports (ECR).
Dæmi
EBD, mál C-321/97, ECR 1999, bls. I-3551.
Tilvísanir til dóma EFTA-dómstólsins skulu vera með sama hætti, nema þar skal skammstöfunin EFTAD notuð fyrir EFTA-dómstólinn og EFTACR fyrir EFTA Court Reports.
Dæmi
EFTAD, mál E-01/7, EFTACR 1998, bls. 95.
Í tilviki álita skulu samskonar tilvitnanir notaðar að undanskildu því að þá skal nota orðið álit í stað orðsins mál.
Dæmi
EBD, álit 1/91, ECR 1991, bls. I-6079.
Tilvísanir til dóma, úrskurða og álita Alþjóðadómstólsins skulu vera skáletraðar. Þær skulu hafa að geyma skammstöfunina AD, nafn málsins, dagsetningu dóms/úrskurðar eða álits og upphafsblaðsíðu í ICJ Reports.
Dæmi
AD, Asylum Case, 20. nóvember 1950, ICJ Reports 1950, bls. 266.
Tilvísanir til danskra og norskra dóma skulu vera með sambærilegum hætti og tilvísanir til eldri hæstaréttardóma, sbr. 2.4. Nota skal skammstöfunina UfR. fyrir Ugeskrift for Retsvæsen (Danmörk), skammstöfunina Rt. fyrir Norsk Retstidende (Noregur), skammstöfunina NJA fyrir sænska hæstaréttardóma og RÅ fyrir stjórnsýsludómstól Svíþjóðar, þá ártal dómsins, svo kommu og loks blaðsíðutal fyrstu síðu dómsins í viðkomandi riti.
Dæmi
UfR. 2000, bls. 2064.
Rt. 2007, bls. 1274.
NJA 2002, bls. 1156.
RÅ 2003, bls. 123.
Tilvísanir til efnis sem birt hefur verið í Alþingistíðindum skulu hafa að geyma skammstöfunina Alþt., ártal viðkomandi bindis, kommu, þá deild Alþingistíðinda sem um ræðir (A-, B- eða C-deild), kommu og loks blaðsíðutal þess sem vísað er til.
Dæmi
Alþt. 1994-95, A-deild, bls. 2098.
Tilvísanir í þingskjöl sem ekki hafa birst í Alþingistíðindum skulu hafa að geyma skammstöfunina þskj., númer þingskjalsins, kommu, númer viðkomandi löggjafarþings, skammstöfunina lögþ., ártal löggjafarþingsins, kommu, blaðsíðutal þingskjalsins sem vísað er til (á pdf-forminu á Alþingisvefnum, http://www.althingi.is), og loks tilgreiningu innan sviga á því að efnið hafi ekki enn birst í Alþingistíðindum.
Dæmi
Þskj. 603, 135. lögþ. 2007-08, bls. 8 (enn óbirt í A-deild Alþt.).
Tilvísanir í ræður sem ekki hafa birst í Alþingistíðindum skulu hafa að geyma skammstöfun viðkomandi þingmanns/ráðherra samkvæmt Alþingisvefnum, kommu, dagsetningu ræðunnar, hvenær hún hófst og loks tilgreiningu á því að efnið hafi ekki enn birst í Alþingistíðindum.
Dæmi
ISG, 28. febrúar 2008, ræða hófst kl. 11:08 (enn óbirt í B-deild Alþt.)