Munnlegar heimildir

Almennt eiga allar heimildir sem getið er í texta að vera skráðar í heimildaskrá.

Á þessu eru þó nokkrar undantekningar:

  • Munnlegar heimildir eru ekki skráðar í heimildaskrá
  • Klassísk verk á borð við Biblíuna og Kóraninn, auka annarra verka sem ekki breytast við endurútgáfu, eru ekki skráð í heimildaskrá
  • Þegar vísað er í eða fjallað um heil vefsvæði eru þau ekki skráð í heimildaskrá

Dæmi

Til munnlegra heimilda teljast gögn og upplýsingar sem lesandinn hefur ekki aðgang að. Þetta á til dæmis við um upplýsingar fengnar úr einkabréfum, tölvupóstum, af minnismiðum, persónulegum viðtölum, símtölum, fyrirlestrum og glærum úr kennslustundum. Slíkra heimilda er einungis getið í lesmáli og þær ekki skráðar í heimildaskrá. Í lesmáli eru allar þær heimildir sem teljast til munnlegra heimilda skráðar á sama hátt.

Snið

Nafn höfundar (munnleg heimild, dagur. mánuður ár)

 

Dæmi

Ólöf Garðarsdóttir (munnleg heimild, 14. október 2012)
S. Tyler (munnleg heimild, 20. september 2011)

eða

(Ólöf Garðarsdóttir, munnleg heimild, 14. október 2012)
(S. Tyler, munnleg heimild, 20. september 2011)

Hér hefur fyrsti stafur fornafns ekki áhrif á röð heimilda í heimildaskrá, þar sem heimildin er ekki skráð þar, og hann er því hafður á undan eftirnafni.

Sígild trúarverk eins og Biblía, Kóran og forngrísk- og rómversk rit eru ekki skráð í heimildaskrá. Aðeins er vísað í þau í texta. Hlutar klassískra verka eru oftast merktir kerfisbundið, til dæmis sem bækur, kaflar, vers eða þættir og skal vísa í þá en ekki blaðsíðutal. Í fyrstu tilvísun er tekið fram til hvaða útgáfu verksins er vísað. Klassískum verkum er ekki öllum skipt upp í hluta á sama hátt svo ekki er hægt að nota sama snið fyrir öll slík verk. Hér er gefið dæmi um hvernig vísað er í Biblíuna í texta.

Snið:

Titill verks. Hluti:vers (um útgáfu)

 

Fyrsta tilvísun

Biblían. Fimmta Mósebók 3:7 (11. íslenska útgáfa)

 

Seinni tilvísanir

Biblían. Fimmta Mósebók 4:11

Þegar vísað er í heilan vef þarf ekki að skrá hann í heimildaskrá, nóg er að vísa í hann í texta.

Á vef ritvers Háskóla Íslands er að finna leiðbeiningar og fróðleik um fræðileg skrif.