Við í Ritverinu höfum verið á ferð og flugi þessa vikuna, enda háskólasvæðið að fyllast af lífi og nemendur og starfsfólk að venjast taktinum í hversdagslífinu. 

Nýnemadagar voru haldnir í vikunni og þar hittum við marga áhugasama nemendur. Kennsla og kynningar á Ritverinu héldu áfram í vikunni og það var virkilega ánægjulegt að sjá hversu áhugasöm nemendur og starfsfólk eru um að nýta þjónustu Ritvers í meiri mæli. Á fimmtudaginn hafði forstöðukona umsjón með instagramreikningi Háskóla Íslands og þar gafst frábært tækifæri til að kynna starfsemi Ritversins fyrir nemendum. 

Það eru ekki eingöngu nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands sem nýta sér þjónustu okkar. Ánægjuleg skilaboð bárust frá nemanda í Menntaskólanum í Kópavogi, en nemendur á fyrsta ári í íslensku fengu það verkefni að nýta sér vef Ritvers Háskóla Íslands til að skrá nokkrar heimildir samkvæmt þeim leiðbeiningum sem þar er að finna. Það er virkilega gleðilegt að sjá að áhrif Ritversins ná út fyrir veggi Háskóla Íslands og nýtast nemendum á ýmsum skólastigum!

Góða helgi, 

Emma Björg