Heimildamat

Eftir leit og val á heimildum er brýnt að meta þær til þess að ákveða hvort þær muni nýtast í rannsókninni. Mikilvægt er að átta sig á því hvort heimild gagnist og uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til fræðilegra heimilda.

Ekki er nauðsynlegt að lesa allt sem skrifað hefur verið um viðfangsefnið áður en þið byrjið að skrifa ritgerðina. Sé þetta gert er líklegt að skrifin reynist erfið. Betra er að lesa nokkrar mikilvægar heimildir og hefjast handa við skrifin sem fyrst. Eftir því sem verkinu vindur fram kemur smám saman í ljós hvað höfundur þarf að kynna sér betur og hvaða heimildum þarf að bæta við. Þannig verður til skapandi víxlverkun skrifa og heimildavinnu.

Til að komast að því hvort heimild sé gagnleg eða ekki er óþarfi að lesa hana spjaldanna á milli. Fyrst er gott að lesa útdrátt eða ágrip, renna yfir efnisyfirlit og kaflaheiti og lesa svo inngang og niðurstöður. Af þessu ætti að vera ljóst hvort heimildin fellur að efni ritgerðarinnar.

Þær heimildir sem virðast mikilvægastar er gott að lesa vandlega, jafnvel oftar en einu sinni. Reynið að finna mikilvægustu fullyrðingarnar í heimildinni, átta ykkur á rökum höfundar og leggja mat á þau. Metið hvort höfundurinn hefur leyst þau vandamál sem hann lagði upp með og hvort einhver vandamál eru óleyst.

Í fræðilegum ritgerðum þarf að sannreyna að heimildirnar uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til fræðitexta. Eftirfarandi spurningar er gott að hafa í huga við slíkt mat.

  • Er efnið ritrýnt?
  • Er efnið ætlað fræðimönnum fremur en almenningi?
  • Er vísað til heimilda á fullnægjandi hátt með tilvitnunum?
  • Er heimildaskráin fullnægjandi?
  • Á hverju byggjast fullyrðingar höfundar?

Sum fræðirit eru ætluð almenningi en ekki fræðimönnum. Alla jafna hefur þá verið skrifað um efnið á fræðilegum vettvangi áður og því æskilegra að nýta þau skrif. Athugið líka að kennslubækur birta yfirleitt ekki nýjar staðreyndir eða hugmyndir. Þær eru því sjaldnast nothæfar sem fræðilegar heimildir.

Stundum er óhjákvæmilegt að nota óritrýnt efni sem heimild í fræðilegri ritgerð, t.d. dagblöð, opinberar skýrslur og annað þess háttar. Í slíkum tilvikum þarf höfundur að gera sér glögga grein fyrir takmörkunum þessara heimilda. Meginrannsókn og rökstuðningur verður líka að byggja á traustum fræðilegum grunni.

Um heimildir á netinu gildir nákvæmlega það sama og um aðrar heimildir: þær skal nálgast með gagnrýnu hugarfari. Á netinu eru margar mikilvægar heimildir; þar er t.d. ógrynni af skýrslum, myndum og tölfræðilegum gögnum sem áður var erfitt að nálgast. En þar er einnig ýmislegt að varast því margt sem þar er sett fram er lítt ígrundað. Stundum er óljóst hver stendur á bak við tiltekna netsíðu og á hverju efnið byggist. Því getur mikill tími farið í það að sannreyna hvort efni á netinu er áreiðanlegt eða ekki.

Gott er tefla heimildum saman þegar það á við. Það getur hjálpað ykkur að skilja hvernig ólíkir fræðimenn geta nálgast efnið á mismunandi hátt. Einnig er mikilvægt að gera greinarmun á ólíkum hliðum sama viðfangsefnis og ólíkum skoðunum um nákvæmlega sama efnið. Þannig geta tveir fræðimenn fjallað um ólíkar hliðar sama viðfangsefnis án þess að vera ósammála.

Heimildir taka mið af þekkingu síns tíma og þess vegna er mjög mikilvægt að huga að aldri heimilda. Gamlar heimildir geta hæglega verið fræðilega úreldar og þetta á við um öll fræðasvið. Sem dæmi má nefna eftirfarandi skilgreiningu Björns Guðfinnssonar (1943:7) á hugtakinu frumlag í íslensku (úr bókinni Íslenzk setningafræði):

Frumlag er fallorð, fallsetning eða bein ræða í nefnifalli, er táknar þann (þá, það) sem aðhefst, er eða verður það, sem umsögnin segir.

Í þessari skilgreiningu er m.a. lögð áhersla á merkingu og fall frumlagsins en samkvæmt henni geta frumlög ekki verið í neinu öðru falli en nefnifall. Seinni tíma rannsóknir hafa hins sýnt að frumlög í íslensku geta hæglega verið í aukafalli (sbr. Mér var orðið kalt). Þetta endurspeglast í eftirfarandi skilgreiningu á frumlagi (úr Handbók um málfræði):

Frumlag er sá setningarliður (yfirleitt nafnliður) sem stendur fremst í setningu í sjálfgefinni orðaröð í íslensku en næst á eftir sögn í persónuhætti í beinum spurningum (já/nei-spurningum) eða ef einhver annar setningarliður er færður fremst. (Höskuldur Þráinsson 1995:55)

Í þessari skilgreiningu er ekkert minnst á fall frumlagsins eða merkingu þess. Áherslan er öll á setningafræðileg atriði eins og setningaliði, orðaröð, beinar spurningar og fleira.