Stutt og skýrt

Fræðilegir textar eiga að vera skýrir og hnitmiðaðir og eiga því helst ekki að innihalda fleiri orð en nauðsynlegt er. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar textar eru endurskrifaðir því eitt helsta markmið endurskrifa er að fínpússa textann.

Dæmi

Hér má sjá nokkur dæmi um það hvernig hægt er að stytta einstakar málsgreinar:

Gerð verður rannsókn sem hefur þann tilgang að kanna stöðu hælisleitenda á Íslandi.
Styttra: Gerð verður rannsókn á stöðu hælisleitenda á Íslandi.

Ekki er öruggt að ef einstaklingur vill fara í slíka aðgerð að hann eigi kost á henni.
Styttra: Ekki er öruggt að einstaklingur sem þess óskar eigi kost á slíkri aðgerð .

Samkvæmt ráðleggingum stofnunarinnar er mælt með því að börn hreyfi sig a.m.k. 60 mínútur á dag.
Styttra: Stofnunin mælir með því að börn hreyfi sig a.m.k. 60 mínútur á dag.

Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að helstu birtingarmyndir ofbeldis…
Styttra: Niðurstöðurnar benda til þess að ofbeldi birtist helst…

Þetta er gert til að tryggja að eins litlar breytingar verði á ferlinu og mögulegt er.
Styttra: Þetta er gert til að lágmarka breytingar á ferlinu.

Í formlegu málsniði eiga helst ekki að vera nein orð sem bæta engu við merkinguna.

Í eftirfarandi dæmum væri æskilegt að sleppa orðunum sem eru innan sviga:

  • þegar (það kemur að því að) börn fara í skóla
  • renna sitt skeið (á enda)
  • krefja e-n um (að borga) 10 milljónir
  • Þetta er maður sem (að) ég þekki ágætlega
  • Þetta var erfiðara (heldur) en ég hafði ímyndað mér
  • Þeir sem ná (þeim árangri) að vinna til verðlauna
  • Ef (að) þú kemur með (þá) geri ég það líka

Nafnorðastíll lýsir sér í því að nafnorð eru fleiri en þörf krefur en textar sem einkennast af slíkum stíl eru oft erfiðir aflestrar. Nafnorðastíll birtist m.a. í dæmum þar sem sögn og nafnorð eru notuð þar sem ein sögn ætti að nægja:

  • gera könnun > kanna
  • skila hagnaði > hagnast
  • framkvæma lendingu > lenda

Stundum er forsetning á eftir nafnorðinu og þá getur ein sögn komið í stað þriggja orða:

  • gera athugun á > athuga
  • leggja mat á > meta
  • taka ákvörðun um > ákveða
  • valda töfum á > tefja

Í sumum tilvikum þarf að umorða setninguna talsvert til að fækka nafnorðunum:

  • Það hafa verið fleiri komur skipa nú í sumar en oft áður > Fleiri skip hafa komið nú í sumar en oft áður
  • Ýmsar leiðir eru færar til þess að stytta langar málsgreinar > Hægt er að stytta langar málsgreinar á ýmsan hátt
  • Ótti við atvinnuleysi er til staðar hjá andstæðingum aðildar > Andstæðingar aðildar óttast atvinnuleysi