Orð og orðasambönd

Munurinn á ólíku málsniði kemur skýrast fram í notkun einstakra orða og orðasambanda. Þannig eiga sum orð eða orðasambönd heima í formlegu málsniði en önnur ekki. Auk þess er alltaf skýr krafa um hefðbundna eða viðurkenna málnotkun í textum sem eru á formlegu málsniði, þar á meðal ritgerðum nemenda.

Dæmi

Sumar sagnir koma mjög oft fyrir i fræðilegum texum af því að þær lýsa rannsóknum eða umfjöllum um fræðileg viðfangsefni. En hér er mikilvægt að nota sagnir sem eiga heima í formlegu málsniði því oft er brugðið frá þessu í ritgerðum nemenda:

  • Í næsta kafla verður fyrst skoðuð staða nokkurra tryggingafyrirtækja...
  • Að því loknu verður farið yfir helstu leiðir sem þau nota til að finna nýja viðskiptavini...
  • Þá verður farið í gegnum starfsmannastefnu fyrirtækjanna…

Í fræðilegri ritgerð ætti þessi textabútur frekar að líta svona út:

  • Í næsta kafla verður fyrst rædd staða nokkurra tryggingafyrirtækja... 
  • Að því loknu verður fjallað um helstu leiðir sem þau nota til að finna nýja viðskiptavini... 
  • Þá verður gerð grein fyrir starfsmannastefnu fyrirtækjanna…

Í formlegu málsniði á að nota íslensk nýyrði fremur en tökuorð eða slettur að svo miklu leyti sem það er hægt.

Nokkur dæmi:

  • áhugamál (ekki hobbý)
  • byggingalist (fremur en arkitektúr)
  • dagskrá (ekki prógramm)
  • dæmigerður (ekki týpískur)
  • harmleikur (ekki tragedía)
  • hljómsveit (ekki band)
  • hlutverk (ekki rulla)
  • kímnigáfa (fremur en húmor)
  • líkan (fremur en módel)
  • myndband (fremur en vídeó)
  • persóna (ekki karakter)
  • rafhlaða (ekki batterí)
  • samhverfa (fremur en symmetría)
  • staðall (ekki norm)
  • streita (ekki stress)
  • söguþráður (ekki plott)
  • verðlaunapeningur (fremur en medalía)

Í formlegu málsniði er gerð krafa um að forsetningar séu notaðar á hefðbundinn hátt, samanber eftirfarandi dæmi:

  • af öryggisástæðum (ekki vegna öryggisástæðna)
  • ávinningur af þessu (ekki á þessu)
  • gerast af sjálfu sér (ekki að sjálfu sér)
  • smitast af einhverjum (ekki frá einhverjum)
  • orsakirnar fyrir þeirri breytingu (ekki á þeirri breytingu)
  • fyrirtæki úr fjármálageiranum (ekki frá fjármálageiranum)
  • sáttur við þetta (ekki með þetta)
  • umfjöllun um efnið (ekki á efninu)

Stundum er eins og góð og gild orð gleymist og í stað þeirra séu notuð orð eða orðasambönd sem eiga ekki heima í vönduðu málsniði.

Hér eru orð sem gott er að muna eftir:

  • áhöfn (ekki áhafnarmeðlimir)
  • háskólar (ekki skólar á háskólastigi)
  • hjólreiðafólk (ekki hjólandi vegfarendur)
  • keppinautar (ekki samkeppnisaðilar)
  • reyndur (ekki reynslumikill)
  • smábátaeigendur (ekki útgerðarmenn smábáta)
  • telja, álíta (ekki vilja meina)

Föst orðasambönd geta lífgað upp á texta sem annars yrði mjög hversdagslegur. Hins vegar er mikilvægt að nota þau á viðurkenndan hátt í formlegu málsniði:

  • Fyrsti ræðumaðurinn tók djúpt í árinni. (ekki árina)
  • Hann barði höfðinu við steininn. (ekki í steininn)
  • Allir komu heim heilu og höldnu. (ekki á höldnu)
  • Margir vildu kveðja sér hljóðs. (ekki kveða)
  • Hann var felmtri sleginn. (ekki flemtri)
  • Það er slæmt að heltast úr lestinni. (ekki hellast) (heltast = verða haltur)
  • Böndin berast að henni. (ekki beinast)

Mikilvægt er að huga að blæbrigðum orða til að skilaboð textans fari ekki á milli mála.

Sum orð hafa t.d. á sér neikvæðan blæ en önnur hafa jákvæðan blæ og þannig er hægt að stilla upp andstæðum eins og t.d. nískur – aðsjáll, huglaus – varkár, fífldjarfur – áræðinn o.s.frv.

Í formlegu málsniði er þó yfirleitt reynt að sneiða hjá orðum sem eru mjög gildishlaðin og nota frekar orð sem eru hvorki jákvæð né neikvæð.

Orð sem hafa fremur neikvæðan blæ eru stundum notuð eins og þau væru algjörlega hlutlaus. Gott dæmi um þetta er sögnin notast við. Samkvæmt Íslenskri orðabók (2002) merkir þessi sögn ‘gera sér að góðu að brúka e-ð (lélegt eða óheppilegt)’. Í ritgerðum nemenda er þessi sögn hins vegar oft notuð eins og hún væri samheiti við nota:

  • Í þessari ritgerð var notast við þekkta aðferðafræði.

Þetta er mjög óheppilegt orðalag vegna þess að í máli sumra merkir þessi setning að aðferðafræðin sem notuð var hafi í raun ekki verið nógu góð.

Annað dæmi af sama toga er sögnin einblína. Í staðalíslensku er þessi sögn fremur neikvæð og merkir ‘horfa á e-ð frá þröngu sjónarhorni’ en nemendur nota hana oft í hlutlausri merkingu þegar þeir eru að lýsa því hvernig viðfangsefni ritgerðar er afmarkað:

  • Hér verður einblínt á fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði.

Hér væri betra að segja: að eingöngu yrði fjallað um fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði.