Hvað á ritgerðin að vera löng?

Hvað á ritgerðin að vera löng?

Við þessari spurningu er aðeins eitt svar: Nógu löng til að svara rannsóknarspurningunni á fullnægjandi hátt.

Það má líka orða svarið þannig að ritgerðin (eða verkefnið) sé nógu löng til að höfundur fái tækifæri til að sýna hvað hann getur fjallað af mikilli kunnáttu og fagmennsku um viðfangsefni sitt. Með öðrum orðum: Sýna hvað hann getur. Góð vinnuregla er að spyrja ekki stærri spurningar en unnt er að svara á þeim tíma sem er til umráða, sem líka má orða þannig að betra er að skrifa mikið um lítið en lítið um mikið. Of stór spurning kallar á yfirborðslega umfjöllun.

Umfang verkefnis er mælt í námseiningum (ektum) eða sem hlutfall af námsmati á námskeiði. Ektur eru mælikvarði á vinnu og það er eini raunverulegi mælikvarðinn á verkefnið, að höfundur hafi lagt þá vinnu í verkefnið sem ætlast er til. Sá mælikvarði mælir ekki lengd verkefnis, heldur gæði.

Lengd verkefnis er tilgreind ýmist í blaðsíðum, orðum eða slögum (stöfum og bilum). Ein blaðsíða getur verið mjög mislöng og fer eftir leturstærð, línubili, línulengd, blaðrönd og fjölda fyrirsagna. Dæmigerð síða í sniðmáti meistaraverkefna er með 12p Calibri-letri, 1,3 línubili og 2,7 sm blaðrönd allan hringinn en 3,2 sm við kjöl. Slík síða, með fernum greinaskilum en án fyrirsagna, er um 370 orð, eða 2500 slög.

Lengd ritgerða fer mjög eftir viðfangsefni, vægi þess og kröfum kennara. Stuttar námskeiðsritgerðir í háskóla á sviði hug- og félagsvísinda geta verið 800 til 1200 orð, miðlungsritgerðir eru gjarnan 1500 til 2000 orð, en lengri og viðameiri verkefni geta verið eins löng og þurfa þykir.

Þegar kennarar gefa upp lengd verkefna eru þeir yfirleitt að setja verkefninu hámark til þess að vernda sjálfa sig og vinnutíma sinn fyrir að þurfa lesa óþarfa málalengingar og útúrdúra. Sjálfsagt er að spyrja kennara hvort hann miðar við hámark eða lágmark.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is