Virkniskýrsla

Margir kennarar telja að virk þátttaka í námi sé einhvers virði, stuðli að betri árangri og betra námssamfélagi milli kennara og stúdenta. Þeir vilja láta stúdenta njóta þess í námsmati með því að gefa svolítinn hluta einkunnar fyrir virkni, og vona þá jafnframt að virknieinkunn verði hvetjandi fyrir allan hópinn.

Kennarar á Menntavísindasviði hafa reynt ýmsar leiðir til að örva og meta virkni stúdenta, sérstaklega hefur verið brýnt að örva virkni fjarnema og skapa virkt samfélag með lifandi samskiptum á kennsluvef.

Kennarar á námskeiðinu Íslenska og stærðfræði í grunnskóla (kennaradeild) hafa látið stúdenta meta virkni sína sjálfir með því að skila virkniskýrslu í lok námskeiðs. Lýsing á verkefninu er hér að neðan og neðst á síðunni er krækja í sérstakt matsblað . Þau skjöl eru enn í endurskoðun.
 

Virkniskýrsla - lýsing á einstaklingsverkefni, 10%

Í lok námskeiðs skilar hver nemandi stuttri greinargerð þar sem fram kemur hver virkni hans og vinnuframlag í öllum þáttum námskeiðsins hefur verið. Þessir þættir eru þátttaka í fyrirlestrum og lestur námsefnis í tengslum við þá, þátttaka í umræðum og um verkefni annarra (t.d. um þankagreinarnar), virkni í hópverkefnum og dæmatímum eða virkni á múðlu.

Nemendur eru eindregið hvattir til að skrá hjá sér jafnt og þétt alla önnina hvað þeir gera á námskeiðinu í hverri viku og hvað þeir telja sig hafa lært.

Skýrslan skal endurspegla og gefa raunhæfa mynd af því hvert vinnuframlagið hefur verið á nám­skeiðinu. Framsetning skal vera í samfelldu máli, skýr og aðgengileg, og textinn vandaður. Ráðlegt er að skipta skýrslunni í nokkra þætti en ónauðsynlegt er að skipta í kafla nema ykkur finnist það betra.

Auk skýrslunnar gefur nemandi sér einkunn sem endurspeglar mat hans á eigin vinnuframlagi .
 

Almennt um námskeiðið og þátttöku í því

Hér má segja eitthvað um hvaða vonir þið höfðuð um námskeiðið og hvernig það lagðist í ykkur.
 

Fyrirlestrar og lesefni

Hversu dugleg voruð þið að sækja fyrirlestra eða hlusta á þá, spyrja spurninga og glósa? Lásuð þið námsefni vikunnar  fyrir fyrirlestrana eða bjugguð ykkur undir þá með öðrum hætti? Hvernig gekk ykkur að lesa og skilja námsefnið eða vinna úr efninu? Lásuð þið ítarefni eða annað efni að eigin frumkvæði í tengslum við efni námskeiðsins? Höfðuð þið samvinnu við aðra um lestur og undirbúning?
 

Umræðutímar og umræða á múðlu

Hversu virk voruð þið í að taka þátt í umræðum og bregðast við skrifum annarra? Höfðuð þið forystu í umræðum eða lögðuð eitthvað til sem athygli vakti og var tekið upp af öðrum. Tókuð þið framlagi kennara eða annarra með gagnrýnum huga? Gegnduð þið hlutverki hópstjóra, ritara eða öðrum ábyrgðarhlutverkum í hópi samstúdenta?
 

Verkefna- og dæmatímar

Hversu virk voruð þið í verkefna- og dæmatímum, lögðuð þið mikla vinnu í heimaverkefnin og hvernig gekk að skila á réttum tíma? Voruð þið dugleg að spyrja?
 

Hópverkefni og önnur verkefni

Hversu virk voruð þið í hópverkefnum? Lögðuð þið margt til, var framlag ykkar frumlegt eða gagnrýnið, voruð þið undirbúin, tók einhver mark á ykkur, tókuð þið forystu?
 

Annað / Heildarmat

Hér getið þið tíundað annað framlag ykkar á námskeiðinu sem ykkur finnst að hafi skipt máli fyrir ykkur eða félaga ykkar, eða verið einhvers virði. Hér getið þið dregið fram hvað þið teljið ykkur hafa lært á þeirri vinnu sem fylgdi námskeiðinu og hvort sú vinna hafi verið ómaksins virði eða tímaeyðsla.

Eyðublöð til sjálfsmats fyrir staðnema og fjarnema

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is