Þankagrein

Hver þankagrein (eða pistill) á að fjalla um einhverja eina hugmynd eða viðfangsefni. Hún þarf að geyma frumlega hugsun eða nálgun að viðfangs­efninu, áhugavert upphaf, skipulagt megin­mál og rök­réttan endi sem tengist upphafinu en getur líka komið á óvart.

Efni þankagreinar getur verið ...

  • fullkomlega frjálst. Þá getur höfundur notað efni úr sarpi reynslu sinnar eða fjallað um áhugamál sín, tilveru, samfélag, nám eða starf
  • tengt efni námskeiðsins. Þá verður höfundur að leggja út af einhverju í lesefninu og tengja við eigin reynslu, hugmyndir eða annað í náminu

Þankagreinar eru góð þjálfun í að skrifa um viðfangsefni námsins og fá höfundinn til að hugsa á virkan hátt um námsefnið. Efnið festist betur í minni, merking þess skýrist og höfundur safnar efni í sarpinn til síðari nota. Sjálfsagt er að nota þessa æfingu til að venja sig á að vísa í heimildir samkvæmt viðurkenndum reglum.

Hæfileg lengd í fyrstu er á bilinu 300 til 500 orð en má vera meira þegar stúdentar þjálfast og finna hvað svona skrif geta verið skemmtileg. Þankagreinaskrif geta hæglega vaxið upp í vandaðar ritgerðir um fræðilegt efni.
 

Fyrirmyndir

Ýmsa pistla í bókum eða blöðum má hafa til hliðsjónar um form og meðferð efnis. Bókin Sykur og brauð eftir Pétur Gunn­arsson er gott dæmi um safn mjög vandaðra stuttra pistla sem hafa má sem fyrirmynd. Tveir fastir pistlahöfundar í Fréttablaðinu kunna þessa list mjög vel: Guðmundur Andri Thorsson og Pavel Bartosek. Pistlar þeirra eru nær undantekningalaust samdir samkvæmt þessum leiðbeiningum og vel skrifaðir, hvað sem okkur finnst um efni þeirra eða skoðanir.
 

Notkun þankagreina í kennslu

Þankagreinar eru prýðileg leið til að skapa umræður á námskeiðum og samskipti milli stúdenta þar sem allir hafa aðgang að námskeiðsvef. Vel hefur gefist að láta stúdenta skila þankagreinum vikulega í fjórar eða fimm vikur. Fyrstu vikur hvers námskeiðs henta vel til að koma stúdentum í gang við að lesa námsefnið, afla sér heimilda og hugleiða efni þeirra, skiptast á upplýsingum og skoðunum án þess að um of formleg verkefni til einkunnar sé að ræða.
 

Umgjörð á múðlu

Vikulegar þankagreinar hafa reynst vel við að koma af stað umræðum í nemendahópi á múðlu. Á stórum námskeiðum er nauðsynlegt að skipta stúdentum í lokaða umræðuhópa (7-12) því betra er að þeir lesi fáa pistla vandlega en marga lauslega. Pistlasvæði hverrar viku er opið frá laugardegi til laugardags. Gott er að miða við að pistill vikunnar sé kominn inn á pistlasvæðið eigi síðar en á mánudag/þriðjudag. Aðrir hafa tíma fram á miðvikudag til að bregðast við en höfundur getur svarað aftur á fimmtudag eða föstudag. Mikilvægt er að láta vikuleg skrif ekki dragast, heldur skrifa reglulega. Þeir sem skila seint eiga á hættu að enginn lesi greinar þeirra og að þeir fái þá heldur engin viðbrögð. Þeir sem ekki ná að skila á tilsettum tíma hafa misst af lestinni en fá tækifæri í næstu viku.
 

Umræður

Til að tryggja að umræður fari af stað er nauðsynlegt að kennari setji ákveðnar reglur og leiðbeiningar um viðbrögð. Stúdentar skulu gera málefnalegar athugasemdir við skrif a.m.k. tveggja annarra (sem ekki hafa þegar fengið athugasemdir frá tveimur). Ef skipulagið gengur upp eiga allir að fá athugasemdir frá tveimur.

Athugasemd verður að fela í sér málefnaleg viðbrögð við efninu þannig að hún kalli á svar frá höfundi. Dæmi um góðar athugasemdir eru spurningar, ósk um nánari skýringar, ábending um tengt efni eða ítarlegra, viðbót við efnið eða gagnrýni á inntak eða framsetningu. Höfundur hefur þá tilefni til að svara. Frekari umræða er til marks um að höfundur hefur eitthvað fram að færa og eykur gildi pistilsins og umræðunnar.

Miklar athugasemdir við málfar og stafsetningu eru ekki vel þegnar en góðfúslegar ábendingar eru í lagi. Athugasemdir á borð við "þetta var æðislegt hjá þér, ég er alveg sammála" eru að sjálfsögðu ekki gildar sem málefnalegt framlag í umræðu nema frekari rökstuðningur fylgi.
 

Mat kennara og einkunn

Kennarar eru ekki skyldugir til að lesa þankagreinarnar og bregðast við þeim en þeir geta litið yfir hvort stúdentar hafa skrifað. Auðvelt er að sjá í múðlu hvort stúdentar hafa skilað tilteknum fjölda greina og tekið þátt í umræðum. Einkunn er gefin fyrir eina þankagrein. Stúdentar velja hana í lok þankagreinatímabils og rökstyðja val sitt fræðilega og faglega. Áður en þeir skila mega þeir lagfæra og bæta. Þátttöku eða virkni í skrifum má meta þannig að full einkunn er gefin ef höfundur hefur skilað öllum þankagreinum, en annars hlutfall af fullri einkunn í samræmi við fjölda pistla. Þátttöku er auðvelt að telja í múðlu. Fái höfundur 8 fyrir greinina verður einkunn fyrir þennan námsþátt 4 ef hann hefur aðeins skilað tveimur greinum af fjórum.

Þankagreinar eru mjög misjafnar. Sumar höfundar segja hversdagslega sögu og draga augljósar eða sjálfgefnar ályktanir. Erfitt er að bregðast við slíkum skrifum nema með einhvers konar hummi. Aðrar finna nýjan flöt á efninu, fá góða hugmynd eða ná að tengja fræði og reynslu á persónulegan hátt sem stækkar sjóndeildarhringinn og vekur sjálfkrafa viðbrögð.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is