Ritvinnsla í Orði (Word)

Námskeiðið hér að neðan er ætlað fólki sem kann töluvert á ritvinnslu í Orði en vill geta unnið stór verkefni af meira öryggi og búið texta til prentunar eða sett upp í sniðmát lokaverkefna. Sérstaklega er mælt með að fólk með lokaverkefni í smíðum læri það sem hér er fjallað um, sá tími sem fer í að læra á ritvinnslu kemur margfalt til baka, einmitt þegar þörfin er mest.

Námskeiðið skiptist í sjö þætti, og mælt er með því að notendur kynni sér þá í réttri röð, hafi þeir ekki kynnst efni þeirra áður. Framvinda námskeiðsins byggist á því að unnið er með verkefnisskjal frá frumstæðri gerð þar til það er fullfrágengið með samræmdu útliti og efnisyfirliti. Þá er bætt við myndum og töflum og að endingu er skjalið sett inn í sniðmát meistaraverkefna, annars vegar í A4 (frá vori 2016) og hins vegar í eldra sniðmát í brotinu B5. Mælt er með því að notendur opni verkefnisskjalið og æfi jafn óðum það sem farið er í. Leiðbeiningarnar í hverjum þætti miðast við að verkefnisskjalið sé á þeim stað í vinnslu sem skilið var við það í næsta þætti á undan.

Þættirnir voru teknir upp í Panopto til bráðabirgða. Notendur eru beðnir að sýna útúrdúrum og smáhnökrum þolinmæði. Eftirfarandi skjöl þarf að sækja áður en námskeið hefst:

  • Yfirlit um efnisþætti og skipanir á íslensku og ensku (.pdf) Hafið þetta skjal til hliðsjónar meðan á námskeiðinu stendur.
  • Verkefni sem unnið verður með (.doc). Stutt skjal með mismunandi textum sem slegnir eru inn eins og algengt er að fólk geri án þess að nýta möguleika ritvinnslunnar. Á námskeiðinu sýnir kennarinn hvernig unnið er með þetta skjal. Opnið skjalið og æfið ykkur á því þegar þið fylgið leiðbeiningum námskeiðsins.

Unnt er að sækja nýja útgáfu skjalsins eins og það lítur út eftir 5. þátt og 6. þátt.

1. þáttur: Íslenskt notendaviðmót og grunnstillingar fyrir skrif á íslensku (12:09 mín.)

Námskeiðið er á íslensku og notendaviðmót forritsins er á íslensku. Í þessum fyrsta þætti er gefið yfirlit um námskeiðið í heild og sýnt hvernig fólk getur sjálft sett upp íslenskt viðmót hjá sér (er ekki til fyrir Mac-útgáfu). Það auðveldar fólki að fylgjast með í framhaldinu. Viðmót á réttu tungumáli má sækja á vef Microsoft, Languge Interface Pack, LIP. Þýðingu og skýringu á öllum hugtökum notandaviðmóts á íslensku og ensku má finna á síðunni Microsoft Language Portal, MLP.

2. þáttur: Yfirlit um skipanir og skilgreiningar (18:19 mín.)

Skipunum forritsins er haldið mjög kerfisbundið að notendum og ætlast til að þeir noti þær. Þær eru flokkaðar undir átta flipum og undir hverjum flipa er skyldum skipunum raðað saman á sérstaklega merkt spjöld. Hér er farið yfir þær fjölskyldur skipana og skilgreininga sem nauðsynlegt er fyrir lengra komna að þekkja og rata á. Kafað er undir yfirborðið og sýnt hvernig unnt er að skoða texta frá ýmsu sjónarhorni og hafa nákvæmari stjórn á texta en venjulega.

3. þáttur: Grundvallaratriði í innslætti (20:57 mín.)

Farið verður stuttlega í fáein grundvallaratriði í innslætti texta, um mun sýnilegra og ósýnilegra tákna, og hlutverk nokkurra mikilvægra stýritákna í lesmáli. Réttur innsláttur er grundvöllur þess að unnt sé að vinna áfram með textann og hafa örugga stjórn á útlitinu þannig að hann prentist rétt. Sérstaklega verður skoðuð gagnsemi þess að leita og breyta.

4. þáttur, a: Stílsnið og samræmt útlit (27:09 mín)
4. þáttur, b: Snið fyrir heimildaskrá og töfludálka (10:05 mín.)

Til þess að geta haft stjórn á útliti texta í stóru skjali er nauðsynlegt að nota stílsniðin markvisst. Mikilvægast er að þekkja snið fyrirsagna og annarra sniða sem forritið leggur til, en einnig er þægilegt að geta skilgreint sín eigin snið. Í sniðmáti lokaverkefna (sjá 7. þátt) er búið að skilgreina þau stílsnið sem á að nota í verkefninu og ætlast er til að þau séu notuð af kunnáttu.

5. þáttur: Yfirsýn, efnissskipan og efnisyfirlit (16:29 mín.)

Það að gera stigskipt efnisyfirlit með tölusettum fyrirsögnum og blaðsíðutali tekur ekki nema 10 sekúndur, en þá þarf öll undirbúningsvinnan að vera rétt (sjá 1. til 4. þátt). Hér verður farið í hvernig unnt er að skipuleggja framsetningu í stærra samhengi, setja upp kerfi yfir- og undirfyrirsagna og halda utan um skipulag stórrar ritgerðar frá upphafi samningar til lokafrágangs.

Verkefnið eins og það lítur út að loknum 5. þætti.

6. þáttur: Töflur og myndir (24:57 mín.)

Sýnt er hvernig setja má upp töflur í Orði með þremur aðferðum sem henta í ólíkum tilgangi. Við sækjum myndir, ljósmyndir og skýringarrit af vef og úr Excel og komum þeim fyrir í lesmálinu þannig að þær haldist á síðunum þar sem við viljum. Að síðustu gerum við skrá um töflur og myndir.

Verkefnið eins og það lítur út að loknum 6. þætti.

7. þáttur a: Sniðmát meistaraverkefna vorið 2016 í A4 (18:05 mín)

Nýtt sniðmát meistaraverkefna frá vori 2016 er í brotinu A4 eins og sniðmát bakkalárverkefna og líkist því í uppsetningu og útliti. Sýnt er hvernig æfingarverkefnið er sett upp í sniðmátinu. Sérkenni þessa sniðmáts er að hið svokallað Venjulega stílsnið (e. Normal) er ekki notað heldur er allur lesmálstexti skilgreindur sem Meginmál (e. Body text). Það gerir notendum kleift að velja letur og stjórna útliti lesmálsins að eigin smekk án þess að uppsetningin raskist að öðru leyti.

7. þáttur b: Eldra sniðmát meistaraverkefna í B5 (44:41 mín.)

Sniðmát meistaraverkefna á Menntavísindasviði er sérstakt að því leyti að það er í bókarbroti (nálægt B5) og kallar því á ýmsar breytingar frá því sem fólk er vant í brotinu A4. Síðurnar eru minni, letrið smærra og línubil þrengra. Sýnt er hvernig æfingarverkefnið er fært inn í sniðmátið, hvað þarf að stilla og laga, og hvaða vandamál koma gjarnan upp. Hér er aðallega tekist á við að láta myndir tolla á sínum stað.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is