Ögn um textafræði

Á þessari síðu er ætlunin að hafa skilgreiningar og skýringar á nokkrum tegundum texta sem fyrir koma í háskólanámi og leiðbeint gætu stúdentum um skrif. Best er ef unnt er að krækja í efni sem til er eða fá fólk til að semja efni sérstaklega fyrir síðuna. Kennarar og aðrir áhugasamir um efnið mega gjarnan benda okkur á efni eða leggja það til.

Hér er meðal annars stuðst við umfjöllun um textategundir sem miðað er við í PISA-prófunum.

Unnt er að flokka tegundir texta á ýmsar lundir og skilgreina undirtegundir eða afbrigði. Tegund texta, form og orðfæri, mótast yfirleitt af tilgangi hans. Hér verður ekki gerð tæmandi grein fyrir tegundum texta en sú kenning verður höfð að leiðarljósi við val á efni og framsetningu þess að ritun geti verið meginstoð í þroska og þróun hugsunar og vitsmuna.
 

Á grundvelli tilgangs höfundar og viðtakanda má greina tvenns konar ritun:

Ritun innávið - höfundur skrifar í þeim tilgangi að glöggva sig á eigin hugsun eða hugmyndum. Ekki til birtingar. Dæmi: Dagbækur, hugleiðingar, glósur og önnur skrifleg eða myndræn úrvinnsla efnis sem höfundur notar til að glöggva sig á inntaki og samhengi.

Ritun útávið - höfundur skrifar í þeim tilgangi að miðla öðrum af þekkingu sinni, hugmyndum eða reynslu. Getur leitt til birtingar. Ritun útávið krefst þess oft að höfundur afli sér efnis og vinni skipulega úr því. Slík ritun getur því engu síður en ritun innávið gegnt því hlutverki að höfundur glöggvi sig á eigin hugsun eða hugmyndum.
 

Á grundvelli tilgangs texta má greina tvo meginflokka texta:

  • Staðreyndatexti (e. factual text): Texti sem ætlað er að miðla upplýsingum eða staðreyndum (einnig fagtexti, nytjatexti, fræðitexti)
  • Bókmenntatexti (e. literary text): Texti sem ætlað er að vekja tilfinningar eða hughrif (einnig skáldritun, skáldtexti, skapandi texti ...)
     

Í mælskufræðum er stundum talað um fjórar megintegundir óbundins texta eða fjóra hætti orðræðunnar (e. modes of discourse)

  • Skýrandi / lýsandi texti (e. expository / descriptive)
  • Rökræðutexti (e. argumentative)
  • Greinandi texti (e. analytical)
  • Frásagnartexti (e. narrative)

Þessir fjórir hættir orðræðunnar geta fléttast saman í einu og sama verkinu. Í fræðilegum skrifum er skýrandi og greinandi texti ríkjandi en í skáldsögum er frásagnartexti ríkjandi. Í skrifum um stjórnmál, skýrslum og álitsgerðum, er rökræðutexti algengur í bland við skýrandi og greinandi texta.

Síðan er í vinnslu. Á þessari síðu og undirsíðum hennar verður fjallað nánar um efnið. Við tökum gjarnan við efni til að setja hér inn. Allar ábendingar eru vel þegnar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is