Notkun heimilda í eigin texta

Til að byggja upp baksvið eigin framlags þarf að fjalla um stöðu þekkingar á sviðinu, fara yfir hvað aðrir hafa sagt um efnið eða hvað til er, hérlendis og erlendis. Yfirlit um efni heimilda er ekki hlutlaus upptalning eða endursögn heldur markviss undirbúningur að því sem höfundur vill sjálfur leggja til málanna. Höfundur verður að láta rödd sína heyrast og má ekki missa sjónar á tilgangi sínum.

Jóhanna G. Ólafsson hefur notað aðferðina Viska þeirra - viðhorf mitt til að útskýra hvernig höfundur getur fléttað saman efni heimilda við eigin rödd, sjá þessar Glærur um uppbyggingu efnisgreina þegar unnið er úr heimildum.

Hægt er að vitna í heimildir á þrjá vegu, með því að

  • taka saman (e. summarise),
  • umorða (e. paraphrase) eða
  • nota beinar tilvitnanir (e. direct quatation).

Hvaða leið er valin fer allt eftir því efninu sjálfu og hvernig höfundur nýtir það og því þarf að velta fyrir sér í hvert sinn sem vitnað er í verk annarra, hvað á við hverju sinni.

Þegar efni er tekið saman notar höfundur eigin orð við að útskýra grundvallaratriði efnis sem fjallað er um í löngu og ítarlegu máli í upprunalegu heimildinni. Til þess að geta tekið efni saman verður höfundur að skilja efnið vel og því er mikilvægt að kynna sér vel efni þeirra heimilda sem notaðar eru.

Umorðun felur í sér að höfundur segir frá efni heimildarinnar í um það bil jafn löngu máli og heimildin sjálf en notar til þess sín eigin orð. Þegar höfundur umorðar efni úr heimild er ekki nóg að skipta út nokkrum orðum, orðalag höfundar verður að gefa til kynna að hann hafi bæði hugsað um og skilið það efni sem hann vitnar í.

Beinar tilvitnanir er það kallað þegar höfundur notar orðrétt efni frá öðrum. Þeim þarf að gera sérstaklega grein fyrir í texta með afmörkun af einhverju tagi. Þar sem beinar tilvitnanir eru afmarkaðar sérstaklega getur mikil notkun þeirra orðið til þess að gera höfundi erfitt að halda þræði og samhengi og því betra að nota þær sparlega.

Sjá vefi ritveranna um meðferð heimilda skv. útgáfureglum APA og Chicago-staðli.

Um þessi atriði er fjallað á örnámskeiðum og vinnustofum ritvers.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is